Starfsfólk Mountaineers harmar atburðinn

Frá björgunaraðgerðum í gærkvöldi.
Frá björgunaraðgerðum í gærkvöldi. Ljósmynd/Landsbjörg

Starfsfólk Mountaineers of Iceland harmar atburðinn sem varð við rætur Langjökuls í gær og biður alla viðkomandi velvirðingar.

Einnig þakkar það öllum viðbragðsaðilum veitta aðstoð og stuðning, að því er kemur fram í yfirlýsingu frá fyrirtækinu.

Þar kemur fram að áætlanir vegna ferðar vélsleðahópsins röskuðust, m.a. vegna slæmra veðurskilyrða en stjórnstöð Mountaineers var vel upplýst um staðsetningu og aðstæður hópsins allan tímann.

Lýst er fleiri áföllum í tilkynningunni, bæði varðandi snjótroðara sem bilaði á leiðinni til fólksins og að erfiðlega hafi gengið að koma öðrum bílum þangað líka.

„Milli kl. 16:15 og 20:28 er hópurinn í skjóli við vélsleðana. Allan tímann er hann í umsjón starfsmanna Mountenaineers og í stöðugu sambandi við höfuðstöðvar. Klukkan 20:28 er hópurinn kominn í skjól í bílana. Á þeim tímapunkti var ekkert annað að gera nema bíða eftir aðstoð sem vitað var að væri á leiðinni,“ segir í tilkynningunni.

Tilkynningin í heild sinni:

„Í gær var öllum sleðaferðum Mountaineers aflýst nema einni ferð með sleðahóp 39 viðskiptavina sem var áætlaður í vélsleðaferð og skoðun í Íshellinn í hádeginu 7. janúar. Hópurinn kom í bækistöð Mountaineers Geldingafell kl. 12:00. Vitað var að von væri á slæmu veðri þegar liði á daginn, eða um kl. 15:00. Mountaineers eru með eigin veðurstöð og samkvæmt athugun á veðri hjá veðurstofum og eigin veðurstöð fyrir ferðina var tímaramminn í lagi m.t.t. veðurs og ferðaáætlunar og glugginn því nýttur. Klukkan 12:30 átti ferðin að hefjast en brottför tafðist um 20 mínútur og þannig hófst atburðarás seinkana sem færði ferðina inn í slæma veðrið. 

Skoðunin Íshellisins tók lengri tíma en áætlað var og lögðu vélsleðarnir af stað kl. 14:16 en hefðu átt að vera farnir frá Íshellinum ekki seinna en kl. 13:30. Á þessum tíma var farið að bæta í vind við Skálpanes. Leiðin frá Íshellinum gekk mjög hægt í erfiðum snjó og ferð sem venjulega tekur um 20 mínútur tók klukkutíma. Þegar þarna er komið við sögu er klukkan orðin 15:16 og ljóst að áætlun hefur raskast.  

Klukkan 15:20 er ljóst að ferðin mun ganga hægar að Geldingafelli. Tuttugu og fimm mínútur líða þangað til að staðan er aftur tekin en þá höfðu leiðsögumenn aðeins komist um 150 metra til viðbótar með hópinn. Allir vélsleðarnir eru með ferilvöktunarbúnað og Tetra talstöðvar eru hluti af öryggisbúnaði. Stjórnstöð Mountaineers var vel upplýst um staðsetningu og aðstæður hópsins allan tímann. 

Kl. 20:28 var hópurinn kominn í skjól í bílum

Klukkan 15:50 leggur viðbúnaðarteymi Mountaineers af stað frá Flúðum upp í Geldingafell samkvæmt viðbragðsáætlun B. Klukkan 16:15 ákveður aðalleiðsögumaður hópsins að halda ekki ferð áfram og býr til skjól með sleðunum. Starfsmenn í Geldingafelli reynd[u] að nálgast hópinn á bílum en þurftu frá að hverfa vegna þungfærðar þrátt fyrir að skyggni væri ágætt. Ákveðið var að sækja snjótroðarann í Skálpanes samkvæmt viðbragðsáætlun A. Eftir nokkur hundruð metra akstur bilar snjótroðarinn. Sem fyrr segir var viðbragðsáætlun B orðin virk sem eru fjórir bílar og jarðýta til að ryðja leiðina. Það verða hinsvegar áföll í þessari áætlun líka því aðeins tekst að koma tveimur bílum til hópsins kl. 20:28 og var hann þar með kominn í skjól. Þriðji bíllinn komst til hópsins um miðnættið og um svipað le[y]ti komu björgunaraðilar.  

Aðdragandi þátttöku björgunaraðila er að kl. 19:32 var Neyðarlínan látinn [sic] vita um að þarna væri björgunarverkefni í uppsiglingu. Kl. 19:59 var Neyðarlínan svo beðin um aðstoð en hálftíma síðar var hópurinn kominn um borð í tvo bíla frá Mountaineers og því ekki um bráða hættu að ræða. Ekki var hægt að ferja hópinn á einungis tveimur bílum og því tók við biðtími eftir björgunaraðilum og bíl Mountaineers. 

Milli kl. 16:15 og 20:28 er hópurinn í skjóli við vélsleðana. Allan tímann er hann í umsjón starfsmanna Mountenaineers og í stöðugu sambandi við höfuðstöðvar. Klukkan 20:28 er hópurinn kominn í skjól í bílana. Á þeim tímapunkti var ekkert annað að gera nema bíða eftir aðstoð sem vitað var að væri á leiðinni. 

Starfsfólk Mountaineers of Iceland harmar þennan atburð og biður alla viðkomandi velvirðingar. Við þökkum jafnfram[t] öllum viðbragðsaðilum veitta aðstoð og stuðning.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert