Verðum að haga okkur í samræmi við aðstæður

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Með eðlilegum fyrirvara, að vita ekki meira um málið en það sem liggur fyrir núna, þá sé ég ekki hvernig fyrirtækið gat með réttu tekið ákvörðun um að fara í ferð við þessar aðstæður,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra í samtali við mbl.is um atburðinn við rætur Langjökuls í gær.

„Fyrirtækið [Mountaineers of Iceland] verður auðvitað sjálft að svara því en það er algjörlega ljóst að við sem ferðaþjónustuland þar sem ferðaþjónusta er orðin undirstöðuatvinnugrein eigum allt undir að haga okkur í samræmi við aðstæður og gera það sem við getum til að tryggja öryggi fólks sem hingað kemur,“ segir Þórdís.

Frá björgunaraðgerðum í gærkvöldi.
Frá björgunaraðgerðum í gærkvöldi. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Aðspurð hvort hún telji að herða þurfi eftirlit með leyfisveitingum til ferðaþjónustufyrirtækja segist hún ekki vera á þeirri skoðun að það vanti frekara regluverk eða heimildir til að bregðast við aðstæðum sem þessum þó að hún muni taka mið af framhaldi málsins.

 „Við höfum lagt í mikla vinnu og  umhverfið er annað, strangara og  öflugra en það var áður. Kröfurnar  eru alveg skýrar og lögin eru skýr.  Þess vegna segi ég að ábyrgð fyrirtækisins er mikil,“ segir Þórdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert