Viðbúnaðarstig hækkað

Um 300 manns tóku þátt í aðgerðum björgunarsveita í gærkvöldi …
Um 300 manns tóku þátt í aðgerðum björgunarsveita í gærkvöldi og nótt. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Veðurstofa Íslands hefur hækkað viðbúnað vegna veðurs við Breiðafjörð, Strandir og Norðurland vestra og eystra. Þar er nú appelsínugul viðvörun í gildi en annars staðar á landinu er gul viðvörun í gildi. 

Við Breiðafjörð er appelsínugul viðvörun í gildi þangað til klukkan 14. „Vestan 18-25 m/s, fyrst sunnan til. Búast má við talsverðri snjókomu eða éljagangi með skafrenningi og takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Samgöngutruflanir og fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.“

Á Ströndum og á Norðurlandi vestra gildir appelsínugul viðvörun einnig til klukkan 14. „Suðvestanhríðarveður, vindur víða 20-28 m/s, snjókoma og skafrenningur með lélegu skyggni. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, lokanir á vegum og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.“

Á Norðurlandi eystra gildir appelsínugul viðvörun, sem er næstefsta viðbúnaðarstig sem gefið er út, til klukkan 16. „Suðvestan- og vestanhríðarveður, víða 20-28 m/s, éljagangur, einkum í Eyjafirði og norðan til á svæðinu. Skafrenningur með lélegu skyggni, víðtækar samgöngutruflanir líklegar, lokanir á vegum og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gild. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.“

Líkt og fram hefur komið á mbl.is í morgun liggur allt flug niðri til og frá landinu sem og millilandaflug og eins er slæm færð um allt land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert