Rósa Margrét Tryggvadóttir
Áfram er spáð vonskuveðri víða um land næstu daga en mikill viðbúnaður hefur verið bæði hjá RARIK og Landsneti vegna rafmagnstruflana.
Þetta kemur fram á vef RARIK og Facebook-síðu Landsnets. Veður hefur einnig haft áhrif á flug á landinu en sú ákvörðun var tekin hjá flugfélaginu Icelandair að flýta níu brottförum frá Keflavík sem ætlaðar voru í morgun vegna veðurs.
„Eins og spár ná þá eru bara áframhaldandi leiðindi í öllum landshlutum að einhverju leyti. Það eru bara umhleypingar og ekkert stöðugt veður að sjá í kortunum,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í Morgunblaðinu í dag.
Sagði hann að spár gerðu ráð fyrir að það byrjaði að hvessa í Suðvesturlandi í nótt og kvað veðrið verða verst á Vestfjörðum og á Breiðafirði fram eftir degi í dag þar sem vindhraði gæti farið allt upp í 28 metra á sekúndu í éljum en appelsínugul viðvörun hefur verið gefin út fyrir landshlutann. Segir Eiríkur að viðvaranirnar falli úr gildi á vestanverðu landinu á milli klukkan þrjú og sex í dag.
Spár gera ráð fyrir að það verði allhvasst, um 10-15 metrar á sekúndu og léttskýjað norðaustanlands í dag en von er á að draga muni úr vindi í kvöld, að sögn Eiríks.
„Það er nóg af vindi og snjókomu fyrir Vestfirði. Svo eru bara áfram umhleypingar eftir helgi,“ segir Eiríkur og staðfestir að áfram sé von á að snjósöfnun og skafrenningur fylgi veðrinu á Vestfjörðum og því einhver hætta á snjóflóðum.