Einn ferðamannanna sem lenti í hremmingunum við rætur Langjökuls beið í meira en ellefu klukkustundir úti í óveðrinu þar til hann komst loksins inn í bíl sem síðar flutti hann í skála Mountaineers of Iceland.
Í bréfi sem hann sendi mbl.is kemur fram að hann hafi verið sá síðasti úr 39 manna hópnum sem var bjargað úr óveðrinu.
„Við vorum átta í síðasta hópnum sem komumst ekkert vegna óveðursins frá klukkan 13 til 21. Við höfðum leitað skjóls fyrir aftan vélsleðana okkar og vorum grafin í fönn upp að hálsi. Það hjálpaði okkur að einangra okkur frá þessum erfiðu aðstæðum,“ skrifar Richard Gonsalves.
„Hinar frábæru björgunarsveitir fundu okkur um klukkan 21 og þá grófum við okkur út úr snjónum, mynduðum keðju með höndunum og gengum 50 metra upp hæðina þar sem farartæki björgunarsveitanna voru. Þetta var það líkamlega erfiðasta sem ég hef nokkru sinni upplifað,“ greinir hann frá.
„Þegar við komum að farartækjunum voru þau full af fólki og því þurftum við að standa fyrir utan í tvær klukkustundir til viðbótar í þessu hræðilega veðri þangað til okkur var troðið þangað inn (við vorum 23 í 9 sæta farartæki). Tæknilega séð var ég sá síðasti sem var bjargað af ferðamönnunum 39 eftir að hafa verið í storminum í yfir ellefu klukkustundir,“ bætir hann við.
Eftir þetta voru ferðamennirnir fluttir í skála Mountaineers of Iceland og síðan í fjöldahjálparstöð á Gullfossi. Gonsalves og eiginkona hans fóru beint þaðan á sjúkrahús á Selfossi þar sem þau dvöldu í sjö klukkustundir. Að því loknu fóru þau aftur á hótelið sitt í Reykjavík.
„Mér þykir enn mjög vænt um Ísland og fólkið þar, þið eruð yndisleg. Björgunarsveitirnar eru einu stigi þar fyrir ofan!! Við fengum nýlega símtal frá fulltrúum Mountaineers of Iceland þar sem þeir báðust innilegrar afsökunar á því sem gerðist í gær [fyrradag] og það var gott að heyra.“