Talsvert hefur snjóað á höfuðborgarsvæðinu og þæfingur í mörgum íbúðagötum. Kallaður hefur verið út aukamannskapur í að ryðja íbúðagötur borgarinnar að sögn Halldórs Þórhallssonar, verkstjóra á framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar. Unnið hefur verið við mokstur síðan þrjú í nótt líkt og undanfarna daga.
Mjög hefur mætt á þeim sem sinna snjómokstri um allt land að undanförnu og það sama á við um starfsmenn Reykjavíkurborgar. Halldór segir að þegar búið var að ryðja allar helstu stofnbrautir hafi farið að snjóa að nýju og því ekki annað í stöðunni en að ryðja að nýju. En þar sem búið var að salta hverfur snjórinn strax og umferð eykst.
Spáð er vaxandi austanátt, 13-20 m/s og slyddu eða rigningu undir hádegi á höfuðborgarsvæðinu en heldur hægari suðaustanátt og rofar til seint í kvöld. Hiti 1 til 5 stig.
Suðvestan 8-15 og él á morgun, en hægari með kvöldinu og kólnar heldur.