Náinn samstarfsaðili Mountaineers kom við sögu

Frá björgunaraðgerðunum við rætur Langjökuls.
Frá björgunaraðgerðunum við rætur Langjökuls. Ljósmynd/Þór Kjartansson

Ferðaþjónustufyrirtæki sem er náinn samstarfsaðili Mountaineers of Iceland flutti fólk á breyttum jeppum í bækistöð síðarnefnda fyrirtækisins við Geldingafell á þriðjudaginn til móts við hópinn sem ætlaði á vegum Mountaineers að skoða íshelli.

Saman fóru hóparnir tveir frá bækistöðinni á vélsleðum þrátt fyrir að von væri á slæmu veðri síðar um daginn. „Ég veit ekki hvað þeir vissu en það voru allir sem var rætt við meðvitaðir um að það væri vont veður í kortunum,“ segir Haukur Herbertsson, rekstrarstjóri Mountaineers of Iceland. Aðspurður segist hann ekki vilja nefna um hvaða fyrirtæki er að ræða. 

Elís Kjartansson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að víðtæk rannsókn sé í fullum gangi á tildrögum ferðarinnar en vill ekki tjá sig um hvort önnur ferðaþjónustufyrirtæki en Mountaineers séu til rannsóknar. Enn á eftir að ræða við forsvarsmenn fyrirtækisins vegna þess sem gerðist. 

Mikill fjöldi björgunarsveitarfólks tók þátt í björgunaraðgerðunum við erfiðar aðstæður.
Mikill fjöldi björgunarsveitarfólks tók þátt í björgunaraðgerðunum við erfiðar aðstæður. Ljósmynd/Landsbjörg

Lýsing ferðamanns kom Hauki í opna skjöldu

Breskur ferðamaður, viðskiptavinur Mountaineers of Iceland, greindi frá því við mbl.is í gær að leiðsögumaðurinn sem fylgdi hans hópi í óveðrinu hefði ekki veitt hópnum neinar ráðleggingar.

Haukur segir að lýsing ferðamannsins hafi komið honum í opna skjöldu. Sjálfur hafi hann rætt við alla leiðsögumennina, sem hafi mismikla reynslu. Stangist lýsingin á við útskýringar þeirra.

„Við vorum í stöðugum samskiptum úr stjórnstöð við reynslumestu leiðsögumennina. Ég veit að einn þeirra labbaði á milli hópanna sem voru ekki langt frá hvor öðrum. Þeir voru að vinna í því að halda fólki rólegu, útskýra að hjálp væri á leiðinni og það þyrfti að halda kyrru fyrir. Það sem ég hef heyrt frá öllum er að leiðsögumenn hafi staðið sig gríðarlega vel í þessu. Auðvitað getur fólk upplifað eitthvað annað,“ greinir hann frá.

Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Fólk í misjöfnu andlegu ástandi 

Spurður segir Haukur að Mountaineers of Iceland hafi reynt að ná tali af öllum ferðamönnunum sem fóru á vegum fyrirtækisins í ferðina. Fólkið sé í misjöfnu andlegu ástandi, sumir hressir og frískir en aðrir mjög eftir sig.

„Við sýnum því fullan skilning og höfum boðist til að veita fólki meiri upplýsingar og stuðning eins og við getum,“ segir hann.

Á annað þúsund ferðir í fyrra

Hvað varðar kostnaðinn við vélsleðaferð á borð við þá sem var farin á þriðjudaginn segir Haukur hann nema um 25 til 40 þúsund krónum á mann. Á ári hverju eru farnar á annað þúsund ferðir á vegum fyrirtækisins en í fyrra tók það á móti um 55 þúsund manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert