Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út vegna umferðarslyss sem varð við þjóðveg eitt skammt utan við Blönduós fyrir stundu. Hópbifreið fór út af veginum. Þá hefur samhæfingarstöðin í Skógarhlíð verið virkjuð vegna slyssins.
Allir viðbragðsaðilar á svæðinu voru boðaðir á slysstað. Á fimmta tug var um borð í rútunni.
Tvær rútur voru í samfloti og mun önnur þeirra hafa oltið. Í rútunum tveimur voru háskólanemar á leið til Akureyrar í skíðaferð.
Uppfært kl. 18:30: Búið er að flytja alla farþegana á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi og í fjöldahjálparstöð Rauða krossins. Þá verða einhverjir fluttir með þyrlunni til Reykjavíkur. Þjóðvegur eitt verður áfram lokaður.
Uppfært kl. 18:55: Þyrla Landhelgisgæslunnar er lent á Blönduósi og er nú unnið að bráðaflokkun á þeim sem slösuðust. Eins og staðan er lítur ekki út fyrir að neinir hinna slösuðu séu í lífshættu.
Uppfært kl. 19:20: Búið er að opna þjóðveg eitt, en rannsókn lögreglu heldur áfram á vettvangi og eru ökumenn beðnir að gæta ýtrustu varúðar. Mikil hálka er á akbraut og mjög hvasst.
Fréttin verður uppfærð.