Mál fyrir lítið samfélag að taka við hundrað manns

Vilhjálmur Stefánsson rannsóknarlögreglumaður hrósar viðbragðsaðilum fyrir mikinn dugnað.
Vilhjálmur Stefánsson rannsóknarlögreglumaður hrósar viðbragðsaðilum fyrir mikinn dugnað. mbl.is/Jón Sigurðsson

Heilt byggðarlag var virkjað til þess að þjónusta um hundrað háskólanema eftir að rútan sem helmingur þeirra var í valt í gær. Þrír voru fluttir með þyrlu til aðhlynningar í Reykjavík, en þeir sem eftir voru gistu í Blönduskóla á Blönduósi í nótt.

„Ég vil meina að þetta hafi farið mjög vel og maður vonar að það hafi ekki verið alvarlegir áverkar hjá þeim þremur sem fóru suður,“ segir Vilhjálmur Stefánsson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, í samtali við mbl.is.

Fulltrúar Rauða krossins og starfsmenn Blönduósbæjar hafa sinnt fólkinu auk hjúkrunarfræðings og prests. Þá gistu nokkrir starfsmenn skólans með hópnum í nótt. „Þetta er svolítið mál fyrir svona lítið samfélag að taka við hundrað manns. Það er fullt af fólki sem hefur komið að þessu. Það er verið að veita eins góðan stuðning og hægt er,“ segir Vilhjálmur.

Nemarnir eru enn í skólanum og er ekki ljóst hvenær þeir komast suður enda er Holtavörðuheiðin lokuð. „Þau fara ekkert fyrr en búið er að opna og skoða aðstæður. Það var flughált í gær og ætli það hafi ekki tekið upp í nótt og í gærkvöldi,“ segir Vilhjálmur. „En það er ekki voðalega þægilegt að fara af stað aftur eftir óhapp,“ bætir hann við og segir eðlilegt að vera skelkaður eftir svona atvik.

Hann segir viðbragðsaðila hafa sýnt gríðarlegan dugnað í kjölfar slyssins í gær. „Þetta var umfram vonir og væntingar. Allir viðbragðsaðilar á svæðinu, Skagafirði og Vestur-Húnavatnssýslu, fljótir að koma. Þetta sýndi að kerfið virkar, þótt alltaf séu einhverjir minni háttar hnökrar. Það var alveg frábært hvernig þetta gekk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka