Biðja fólk um að ganga ekki að flugstöðinni

Þeir sem telja sig vera að missa af flugi eru …
Þeir sem telja sig vera að missa af flugi eru vinsamlegast beðnir um að reyna ekki að ganga að flugstöðinni. Ljósmynd/Lögreglan

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum biður þá, sem telja sig hafa verið að missa af flugi, að taka ekki upp á því að ganga upp í flugstöð til að ná flugi sínu. 

Um 3 kílómetra röð bíla hefur myndast að Keflavíkurflugvelli, en færð á svæðinu er að versna til muna og nær röðin frá flugvellinum að Þjóðbraut sem liggur inn í Keflavík. 

Lögreglan á Suðurnesjum mælir með því að allir haldi kyrru fyrir og séu ekki að keyra að óþörfu. Hafa björgunarsveitir verið kallaðar út til að aðstoða lögreglu. Samkvæmt Davíð Má Bjarnasyni, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, hefur verið nokkuð um það að fólk hafi verið flutt úr bílum og skilið þá eftir. 

Búið er að aflýsa öllu flugi Icelandair í kvöld, en það eru flugferðir sem var frestað frá því fyrr í dag. 

Í færslu lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að hætta stafi af einstaklingum sem hafa tekið upp á því að ganga að flugstöðinni og var þeim komið í skjól í bifreiðum sem sátu fastar á Reykjanesbraut. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert