Eiga eftir að taka skýrslu af forsvarsmönnum Mountaineers

Frá björgunaraðgerðunum við rætur Langjökuls.
Frá björgunaraðgerðunum við rætur Langjökuls. Ljósmynd/Þór Kjartansson

Lögreglan á Suðurlandi hefur ekki tekið formlega skýrslu af forsvarsmönnum Mountaineers of Iceland en það verður gert á allra næstu dögum. Ekki er hægt að segja til um hvenær rannsókn lögreglu á hrakningum 39 ferðamanna á vegum Mountineers of Iceland lýkur.

Hópurinn lenti í hrakningum við rætur Langjökuls á þriðjudaginn í síðustu viku og voru flestir í hópi ferðafólks orðnir blautir og kaldir þegar fyrstu hópar björgunarsveita komu að þeim.

Lögreglan rannsakar hvers vegna farið var af stað í vélsleðaferðina þrátt fyrir veðurviðvaranir.

Elís Kjart­ans­son, lög­reglu­full­trúi hjá lög­regl­unni á Suður­landi, segir málið einfaldlega í ferli og rannsókn í fullum gangi.

Margir ferðamannanna yfirgáfu Ísland fljótlega eftir svaðilförina en lögreglan hefur rætt við þá. „Við náðum því á fyrsta sólarhringnum og settum mikinn kraft í það,“ segir Elís sem segir að formleg skýrsla verði tekin af forsvarsmönnum Mountaineers of Iceland á allra næstu dögum. 

Að lok­inni allri úr­vinnslu lög­regl­unn­ar verður tek­in ákvörðun um hvort ákært verður í mál­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert