Flestir komnir frá borði en fastir á flugvellinum

Fólkið sem lenti í dag bíður á efri hæð flugvallarins, …
Fólkið sem lenti í dag bíður á efri hæð flugvallarins, en óvíst er hvenær það kemst í burtu vegna færðar. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert

Um fjögur þúsund manns bíða nú á Keflavíkurflugvelli þar sem ekki er fært landleiðina í burtu. Fyrst er um að ræða hóp fólks sem kom fyrr í dag til að fljúga af landi brott, en komst svo aldrei á brott eftir að mestöllu flugi var aflýst. Svo eru það farþegar sem komu með tíu flugvélum í kvöld og þurftu að bíða af sér veðrið í nokkrar klukkustundir úti á flugstæðum.

Fjöldi þeirra sem bíða þess að fara úr landi er um 1.800 að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, og er það í innritunarsalnum á neðri hæð stöðvarinnar. Fjöldi þeirra sem eru komnir frá borði er hins vegar um 1.850 auk um 350 sem enn bíða þess að komast frá borði.

Fólkið sem var að koma til landsins mun bíða á biðsvæðinu á efri hæð flugstöðvarinnar þangað til hægt verður að komast að flugstöðinni. Ekki er hægt að segja til um hvenær það verður, en Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að það velti allt á því hvenær Vegagerðinni takist að opna Reykjanesbrautina og aðkomu að flugvellinum. Er nú unnið hörðum höndum að því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert