Icelandair mun flýta flugi frá Keflavík í dag vegna veðurs. Um er að ræða eftirfarandi 10 brottfarir frá Keflavík og hafa upplýsingar um breytingarnar verið sendar á alla farþega.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Brottfarir kl.14:
FI 631 til Kaupmannahafnar
FI 631 til Boston
FI 623 til Newark
FI 853 til Chicago
FI 689 til Orlando
FI 603 til Toronto
Brottfarir kl. 15:
FI 615 til New York
FI 681 til Seattle
FI 454 til London Heathrow
Brottför kl. 16:
FI 645 til Washington
Icelandair segir, að allt flug Icelandair frá Keflavíkurflugvelli í morgun hafi verið á áætlun eða í lítils háttar seinkun. Lægðin sem fór yfir landið síðdegis í gær og í gærkvöldi hafði í för með sér að aflýsa þurfti öllu flugi frá landinu og margir farþegar biðu fastir í flugvélum að sögn félagsins.
„Veðrið í gærkvöldi varð óvænt verra en spár gerðu ráð fyrir. Aðstæður voru erfiðar þar sem fólk sat fast í flugvélum og í flugstöðinni þar sem Reykjanesbrautin var lokuð. Við þökkum farþegum þolinmæðina í þessum óviðráðanlegu aðstæðum. Við viljum jafnframt þakka starfsfólki okkar og viðbragðsaðilum sem gerðu sitt besta [til] að upplýsa farþega, skipuleggja aðgerðir, dreifa mat, drykkjum, teppum og útvega gistiaðstöðu. Þá sendi Icelandair mat fyrir 400 manns í hjálparmiðstöðina sem var sett upp í íþróttahúsinu í Reykjanesbæ. Sem betur fer þurftu ekki jafn margir að verja nóttinni þar og búist var við. Flestir fóru á hótel eða til síns heima þegar Reykjanesbrautin var opnuð á ný um miðnætti. Í samstarfi við Isavia, Rauða krossinn, [b]jörgunarsveitir, [l]ögreglu og Reykjanesbæ, lögðust allir á eitt að greiða úr stöðunni. Allir farþegar Icelandair sem lentu í röskunum vegna veðursins í gær hafa verið endurbókaðir í ný flug og gert er ráð fyrir að flestir fari úr landi í dag,“ er haft eftir Ásdísi Ýr Pétursdóttur, uppýsingafulltrúa Icelandair, í tilkynningunni.
Bent er á, að gular viðvaranir séu í gildi til miðvikudags og megi því gera ráð fyrir áframhaldandi röskunum á flugi.
„Farþegar sem eiga bókuð flug í dag og næstu daga eru hvattir til fylgjast vel með skilaboðum frá Icelandair um breytingar á flugi. Icelandair vinnur í því að hafa samband við farþega sem eiga bókað flug til að upplýsa um breytingar á brottförum.
Jafnframt hvetur Icelandair farþega að kanna hvort að réttar upplýsingar um netfang og símanúmer séu skráðar hjá félaginu. Farþegar munu fá senda uppfærða ferðaáætlun í tölvupósti en geta einnig fylgst með „umsjón með bókun“ á heimasíðu Icelandair. Þar eru flugupplýsingar uppfærðar um leið og breytingar liggja fyrir og þar geta farþegar jafnframt uppfært netföng og símanúmer þannig að hægt sé að koma skilaboðum til þeirra hratt og örugglega,“ segir Icelandair.