Logn á milli lægða

Facebook-síða lögreglunnar á Suðurnesjum

Mikið álag var á lögreglumenn á Suðurnesjum í gærkvöldi og í nótt en að sögn varðstjóra er komið fínt veður þar núna. Ekki er mikill snjór en vegna fjúks hefur talsvert skafið í skafla í efri byggðum í Reykjanesbæ. 

Mikilvægt sé að fólk fari varlega og gefi sér tíma og geri ráð fyrir að þurfa að skafa og jafnvel moka sér leið út úr bílastæðum. 

Fjöldahjálparmiðstöð Rauða krossins.
Fjöldahjálparmiðstöð Rauða krossins. Ljósmynd Rauði krossinn

Hann segir að enn séu um 150 manns í fjöldahjálparstöðinni í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ en alls gistu þar 180 manns í nótt. Ekki væsir um fólkið og getur það verið í miðstöðinni þangað til það fer í flug en flestir eiga bókað flug vestur um haf eftir hádegi. 

Icelandair hefur flýtt mörgum flugferðum síðdegis en von er á næsta óveðri þá.

Veðrið er gengið niður í bili að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu og búið er að skafa allar helstu stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu. Starfsmenn Vegagerðarinnar og sveitarfélaga hafa unnið að því í nótt að hreinsa götur og því allar stofnbrautir greiðfærar en færðin gæti þó verið erfið inni í íbúðahverfum og á bílastæðum.

Að sögn verkstjóra á framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar er enn verið að hreinsa stofnleiðir og í kringum skóla. Hann segist vonast til þess að upp úr klukkan níu verði hægt að hefja mokstur í íbúðagötum en færðin er sennilega einna verst þar núna. 

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er vetrarfærð um mestallt land og ekkert ferðaveður eftir hádegi ef veðurspár ganga eftir. Vegfarendur eru beðnir um að fylgjast vel með færð og veðri áður en lagt er í langferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert