Rannsókn á meintum brotum Kristjáns Gunnars Valdimarssonar stendur enn og er í eðlilegum farvegi. Ekki liggur ljóst fyrir á þessari stundu hve langan tíma hún muni taka.
Þetta segir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Að öðru leyti tjáir hann sig ekki um framgang rannsóknarinnar og vill ekki segja til um hvort önnur kona, þá sú fjórða, hafi tilkynnt lögreglu um meint kynferðisbrot á hendur Kristjáni Gunnari, eins og greint var frá í kvöldfréttum Stöðvar 2 30. desember síðastliðinn.
Kristján Gunnar var handtekinn á heimili sínu í Vesturbæ Reykjavíkur aðfaranótt aðfangadags, grunaður um að hafa frelsissvipt unga konu í allt að tíu daga og brotið kynferðislega gegn henni. Hann var látinn laus að lokinni skýrslutöku en handtekinn að nýju að morgni jóladags, þá grunaður um að hafa frelsissvipt tvær ungar konur og brotið gegn þeim.
Var Kristján Gunnar þá úrskurðaður í gæsluvarðhald til 29. desember. Lögregla fór fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir Kristjáni Gunnari á grundvelli rannsóknar- og almannahagsmuna. Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur höfnuðu kröfu lögreglunnar.