Vindhviður komnar í 48 metra á sekúndu

Þjóðvegi 1 við Vík í Mýrdal hefur verið lokað.
Þjóðvegi 1 við Vík í Mýrdal hefur verið lokað. mbl.is/Jónas Erlendsson

Vaxandi norðaustanátt er á landinu og nú þegar er nánast allt ófært á Vestfjörðum. Í Sandfelli í Öræfum á Suðausturlandi eru vindhviður komnar í 48 metra á sekúndu.

Á þeim svæðum þar sem appelsínugul viðvörun er í gildi heldur þetta leiðindaveður áfram í kvöld með 20 til 28 metrum á sekúndu, að sögn Daníels Þorlákssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Hvassast á Seltjarnarnesi og í Vesturbænum

Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu í kvöld. Vindhraði verður 15 til 23 metrar á sekúndu og hvassast á Seltjarnarnesi og í Vesturbænum. Búast má við leiðinlegri færð á höfuðborgarsvæðinu og blindbyl en á morgun mun hlýna hægt og rólega. Áfram verður þó hvasst en dregur úr skafrenningi. Gul viðvörun verður áfram í gildi og lægir ekki að ráði fyrr en aðfaranótt miðvikudags.

Leiðindaveður verður á landinu í kvöld.
Leiðindaveður verður á landinu í kvöld. mbl.is/​Hari

Hægari vindur á morgun

Þar sem appelsínugul viðvörun er í gildi verður heldur hægari vindur á morgun, en þó 18 til 25 metrar á sekúndu. Færð verður áfram erfið. Úrkomumest verður á norðaustanverðu landinu og þar mun færð halda áfram að spillast.

Á Vestfjörðum verður áfram hvasst og snjókoma á Vestfjörðum, alla vega til aðfaranætur miðvikudags. Óvissuástand verður áfram í gildi vegna snjóflóða og lagast það ekki fyrr en draga fer úr vindi og úrkomu, sem verður ekki á næstunni.

Eftir hádegi á morgun verða appelsínugular viðvaranir áfram í gildi á Breiðafirði og Vestfjörðum.

Veðurvefur mbl.is

Vetrarfærð í miðborginni.
Vetrarfærð í miðborginni. mbl.is/Arnar Þór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert