Í dag verður norðaustan 20-25 m/s á landinu, en hægari norðaustan til. Áframhaldandi hríðarveður verður á norðurhelming landsins og færð því áfram óstöðug. Viðvaranir eru í gildi í öllum landshlutum í dag ýmist vegna vinds eða hríðar.
„Eftir rysjótta tíð horfir til betri vegar á næstu dögum því á morgun dregur úr vindi og útlit er fyrir úrkomuminni daga með rólegum vindi fram að helgi en næsta lægð er síðan væntanleg á sunnudaginn með rigningu og hlýju veðri,“ segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Líkt og ítrekað hefur komið fram eru appelsínugular viðvaranir í gildi við Breiðafjörð, á Vestfjörðum, Suðausturlandi, á Ströndum og Norðurlandi vestra og miðhálendinu. Gilda þær til miðnættis á öllum landsvæðum nema Suðausturlandi og miðhálendinu en þar renna þær út á hádegi í dag og við taka gular viðvaranir á Suðausturlandi og miðhálendinu og gilda til miðnættis líkt og á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi.
Norðaustan 20-25 m/s, en hægari norðaustan til á landinu. Skafrenningur í öllum landshlutum og víða snjókoma eða él en úrkomulítið á Suður- og Vesturlandi. Heldur hægari eftir hádegi. Þurrt um landið suðvestanvert, slydda eða rigning á Austfjörðum, en slydda eða snjókoma norðan til. Hiti um og yfir frostmarki. Dregur úr vindi á morgun, fyrst austan til. Norðvestan 8-15 á Austurlandi annað kvöld, en annars hæg breytileg átt. Dálítil él um norðanvert landið og hiti í kringum frostmark.
Á miðvikudag:
Norðaustan 15-23 m/s um landið norðvestanvert, en annars norðlæg átt 10-15. Snjókoma á Vestfjörðum, en él eða slydduél norðan- og austanlands, en annars úrkomulítið. Dregur úr vindi og úrkomu þegar líður á daginn. Vægt frost, en víða frostlaust við ströndina.
Á fimmtudag:
Suðlæg átt 5-13 m/s, dálítil él, einkum sunnan og vestan til. Hiti um og undir frostmarki.
Á föstudag:
Vestlæg átt 8-15 m/s og él, en hægari og úrkomulítið fyrir austan. Frost um mestallt land.
Á laugardag:
Vestlæg átt og bjartviðri, en stöku él um landið vestanvert. Snýst í vaxandi sunnanátt vestast á landinu síðdegis. Frost 1 til 9 stig, kaldast inn til landsins.
Á sunnudag:
Stíf sunnan- og suðvestanátt með rigningu og hlýnandi veðri.
Á mánudag:
Útlit fyrir allhvassa vestlæga átt með éljum á vesturhelming landsins. Kólnandi.