Ferðamálastofa gerði athugsemdir við einstaka þætti öryggisáætlunar ferðaþjónustufyrirtækisins Mountaineers, sem þó uppfyllir formskilyrði laga um öryggisáætlanir.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu. Þar segir að í kjölfar frétta af farþegum ferðaþjónustufyrirtækisins Mountaineers sem lentu í hrakningum í vélsleðaferð 7. janúar síðastliðinn hafi Ferðamálastofa óskað eftir gildandi öryggisáætlun fyrirtækisins og skýringum á tilurð atviksins.
Eftirliti og skoðun Ferðamálastofu beindist fyrst og fremst að öryggisáætlun vélsleðaferðarinnar, sem samkvæmt tilkynningu innihélt þá þætti sem gerður er áskilnaður um í lögum. „Það er því mat Ferðamálastofu að öryggisáætlun Mountaineers uppfylli formskilyrði 11. gr. laga um Ferðamálastofu nr. 96/2018.“
Ferðamálastofa skoðaði einnig atriði sem varða öryggisáætlanir almennt og gerði athugasemdir við að einstakir þættir öryggisáætlunar ferðaþjónustufyrirtækisins mættu vera ítarlegri og skýrari, meðal annars varðandi veðurfar og skilyrði, kynningu á öryggisreglum og -þáttum til farþega og starfsmanna, leiðarval og ytri aðstæður.
Ferðaþjónustufyrirtækinu Mountaineers hafa verið kynntar athugasemdir Ferðamálastofu og hefur því verið veittur mánaðarfrestur til úrbóta.