Ein flugvél komið og farið í Keflavík

Icelandair aflýsti eða seinkaði öllum flugferðum dagsins.
Icelandair aflýsti eða seinkaði öllum flugferðum dagsins. mbl.is/Þórður Arnar

Rólegt hefur verið á Keflavíkurflugvelli það sem af er degi, enda liggja nánast allar flugsamgöngur niðri um land allt. 

Flugvél British Airways frá London Heathrow er sú eina sem lent hefur á Keflavíkurflugvelli það sem af er degi. Hún lenti í hádeginu og fór aftur klukkan 13:21.

Samkvæmt Guðjóni Helgasyni, upplýsingafulltrúa Isavia, var landgöngubrúm lokað snemma í morgun. Hann segir þjónustuaðila British Airways á Keflavíkurflugvelli, Airport Associates, hafa komið farþegum til og frá borði með stigabílum.

Icelandair aflýsti eða seinkaði öllum komum og brottförum dagsins og var farþegum gert viðvart í gær. Að sögn Guðjóns hefur því engin örtröð myndast á Keflavíkurflugvelli.

Útlit er fyrir að flug verði á áætlun á morgun, föstudaginn 24. janúar, en Icelandair hefur bætt við nokkrum flugferðum, svo sem á milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar, Keflavíkur og Parísar, Keflavíkur og Amsterdam og Keflavíkur og London, til að koma öllum farþegum sínum á leiðarenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert