Suðvestanhvassviðri eða -stormur og éljagangur á vestanverðu landinu í dag og eru gular viðvaranir víða í gildi, þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu. Innanlandsflug sem og millilandaflug liggur niðri og vegna veðurs og ófærðar hefur Strætó þurft að fella niður ferðir frá Reykjavík út á land.
Vetrarfærð er í flestum landshlutum og víða slæmt ferðaveður um vestan- og norðvestanvert landið. Á Suðvesturlandi er hálka eða hálkublettir, mjög hvasst og gengur á með mjög dimmum éljum. Óvissustig er í gildi á Mosfellsheiði, Hellisheiði, Þrengslum og Lyngdalsheiði og geta vegirnir lokað fyrirvaralaust.
Á Vesturlandi er hálka, hálkublettir og víða éljagangur. Þæfingsfærð er á Svínadal. Snjóþekja eða þæfingsfærð og slæmt ferðaveður er á Vestfjörðum en vegurinn um Þröskulda er lokaður og beðið með mokstur vegna veðurs. Hið sama gildir um Klettsháls, Steingrímsfjarðarheiði og Hálfdán. Óvissustig er í Súðavíkurhlíð og vegurinn lokaður
Víða er mjög hvasst á Norðurlandi og leiðinlegt ferðaveður. Leiðir um Vatnsskarð, Þverárfjall og Öxnadalsheiði eru lokaðar vegna veðurs. Slæmt ferðaveður er milli Akureyrar og Húsavíkur og Akureyrar og Mývatns, mjög hvasst og blint. Einnig mjög blint á Vopnafjarðarheiði.
Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar verið hvasst í allan dag og mjög blint í hryðjum. Skafrenningur er á fjallvegum. Fer að ganga niður eftir klukkan 21 í kvöld og skánar mjög í nótt.
Leið 51: Reykjavík-Höfn
Allar ferðir falla niður þar til annað verður tilkynnt.
Leið 52: Reykjavík-Landeyjahöfn
Allar ferðir falla niður þar til annað verður tilkynnt.
Leið 57: Reykjavík-Akureyri
Allar ferðir falla niður þar til annað verður tilkynnt.
Leið 78: Akureyri-Siglufjörður
Allar ferðir falla niður þar til annað verður tilkynnt.