Falleg glitský sáust fyrir austan

Glitskýin voru falleg á Eskifirði í morgun.
Glitskýin voru falleg á Eskifirði í morgun. Ljósmynd/Telma Ósk Einarsdóttir

Falleg glitský sáust á himni á Eskifirði í morgun. Skýin myndast í heiðhvolfinu, gjarnan í um 15 til 30 kílómetra hæð.

„Glitský sjást helst um miðjan vetur, um sólarlag eða sólaruppkomu. Litadýrð þeirra er mjög greinileg því þau eru böðuð sólskini, þótt rökkvað sé eða jafnvel aldimmt við jörð,“ segir í upplýsingum um þetta fyrirbæri á vef Veðurstofu Íslands.

Algeng á þessum árstíma

Að sögn Daníels Þorlákssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, eru glitský algeng á þessum árstíma. „Það er búinn að vera svolítill vindur en meira og minna heiðskírt þannig að þau ná að sjá upp í glitskýin,“ segir hann um veðrið fyrir austan, sem hefur verið heldur betra í dag en víða annars staðar á landinu.

Daníel bætir við að glitskýin sjáist oftar á austanverðu landinu. Þá er oft vestanátt og þungbúið á vestanverðu landinu en heiðskírt á sama tíma fyrir austan.

Appelsínugul viðvörun á Vestfjörðum átti að sögn Daníels að gilda til klukkan þrjú í dag. Áfram verður hvasst og éljagangur en dregur heldur úr honum á vestanverðu landinu. Slæma veðrið sem hefur verið víða um land fjarar svo út seint í kvöld og í nótt.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert