Von er á næstu lægð til landsins í kvöld með tilheyrandi viðvörunum. Spáð austanhvassviðri með snjókomu og á morgun verður einnig hvasst og snjókoma. Útlitið er aftur á móti ágætt fyrir sunnudaginn.
„Í dag verður hæg breytileg átt víðast hvar á landinu og úrkomulítið. Í kvöld er þó von á næstu lægð sem færir okkur hvassa austanátt og snjókomu í kvöld, fyrst við suðurströndina en síðar í öllum landshlutum. Austanáttin færir okkur mildara loft og mun hitastigið vera allt að 7 stigum hlémegin fjalla sunnan til á landinu.
Á morgun verður síðan allhvöss norðaustanátt með snjókomu eða éljum norðan og austan til. Síðdegis snýst síðan í sunnanátt með snjókomu eða slyddu sunnan- og vestanlands.
Á sunnudaginn lítur út fyrir hægviðri með stöku éljum í flestum landshlutum en björtu inn á milli,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.
Gefnar hafa verið út gular viðvaranir á Suðurlandi, við Faxaflóa og á Suðausturlandi og taka þær gildi klukkan 21 í kvöld og gilda fram undir morgun.
Vetrarfærð í flestöllum landshlutum en á Suðvesturlandi er greiðfært að mestu á láglendi en hálka á fjallvegum. Þæfingsfærð er á Fróðárheiði en annars hálka á flestum leiðum á Vesturlandi.Lokað er á Öxnadalsheiði en verið að moka. Ófært er á Vatnsskarði en starfsmenn Vegagerðarinnar eru að kanna færð á öðrum leiðum. Þæfingsfærð er á Hófaskarði og Hálsum. Verið er að kanna færð á öðrum leiðum á Norðausturlandi.
Minnkandi vestanátt, breytileg átt 3-10 m/s um hádegi og yfirleitt þurrt. Vaxandi austanátt og þykknar upp síðdegis, fyrst syðst. Austan 13-18 m/s og snjókoma í kvöld, en 18-25 sunnan til og á Vestfjörðum í nótt. Hægari norðaustanlands. Frost 1 til 7 stig, en frostlaust með suðurströndinni.
Norðaustan 10-18 m/s á morgun, en 18-23 á Vestfjörðum. Snjókoma, en slydda síðdegis á Suðurlandi. Lægir annað kvöld. Hiti í kringum frostmark, en að 6 stigum með suðurströndinni.
Á laugardag:
Hvöss austlæg átt og snjókoma, en slydda eða rigning sunnan til. Snýst í hægari suðlæga átt síðdegis. Frost 0 til 3 stig, en hiti að 4 stigum með suðurströndinni.
Á sunnudag:
Breytileg átt, víða 5-10 m/s, og snjókoma eða slydda með köflum. Frost 0 til 5 stig.
Á mánudag:
Fremur hæg suðaustanátt, bjart með köflum, en stöku él með suður- og austurströndinni. Frost 0 til 7 stig, kaldast í innsveitum norðanlands.
Á þriðjudag:
Hæg austlæg átt, en hvassara syðst. Bjartviðri, en dálítil él austan til á landinu. Kalt í veðri.
Á miðvikudag:
Hæg breytileg átt, bjartviðri og að mestu úrkomulaust. Kalt í veðri.
Á fimmtudag:
Útlit fyrir stífa norðaustlæga átt, él norðan til en bjart um landið sunnan- og vestanvert. Áfram kalt.