„[Við] biðjum fyrir því að þetta gerist ekki aftur,“ segja hjónin David og Gail Wilson, sem fóru í vélsleðaferð á vegum Mountaineers of Iceland í janúar fyrir þremur árum en urðu viðskila við samferðafólk sitt. Daginn sem ferðin var farin hafði Veðurstofan gefið út stormviðvörun, en Mountaineers of Iceland ákváðu samt að fara í sleðaferðina.
Þau eiga hins vegar ekki við sína eigin ferð, heldur vísa þau til svipaðs máls sem kom upp í upphafi árs, þegar 39 ferðamenn urðu strandaglópar við rætur Langjökuls. Fólkið þurfti að grafa sig í fönn og bíða síðar meir í allt að sjö klukkustundir í bílum eftir aðstoð björgunarsveita vegna óveðurs á svæðinu.
David og Gail hafa fylgst með málinu og í bréfi sem þau senda Iceland Monitor segjast þau ekki trúa því að sagan hafi endurtekið sig og málið veki hjá þeim óhug. Þau hafa fylgst með fréttaflutningi af málinu og vísa meðal annars í frásögn Katia Kuwabara, brasilísks ljósmyndara, sem var í ferðinni og hugsaði með sér um tíma: „Svona deyrðu í snjó.“
Kuwabara vildi segja frá upplifun sinni af ferðinni til að koma í veg fyrir að svona nokkuð myndi endurtaka sig. „Það er einmitt ástæða þess að við tókum málið alla leið fyrir íslenskum dómstólum,“ segir í bréfi Davids og Gail. Í mars í fyrra voru Þeim dæmdar tæplega 700 þúsund krónur í bætur vegna verulegs gáleysis leiðsögumanna í ferðinni.
„Okkur var sagt að skaðabæturnar yrðu ekki háar en við gátum ekki litið fram hjá þessu og látið annað fólk ganga í gegnum það sama síðar meir. Fyrirtækið neitaði að axla ábyrgð og reyndi að kenna okkur um, en við vorum staðráðin í að koma í veg fyrir að þetta kæmi fyrir einhvern annan. En þetta gerðist aftur!“ segja hjónin í bréfinu.
Þau fullyrða að ef svona nokkuð hefði átt sér stað í Ástralíu hefði fyrirtækið verið tekið til ítarlegrar skoðunar. „Af hverju að hafa veðurviðvaranir ef það er bara hægt að hunsa þær?“ spyrja hjónin.
Þá segjast þau finna til með ferðamönnunum 39 sem lentu í hremmingunum. „Þetta mun fylgja þeim alla tíð.“