Kraftaverk var unnið við björgun Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er gjaldþrot blasti við félaginu síðasta sumar vegna framúrkeyrslu við byggingu íbúðarhúss að Árskógum 1-3. Þetta segir Sigríður Snæbjörnsdóttir, varaformaður félagsins, en hún gerir málið upp í félagstíðindum FEB sem komu út á dögunum.
Málið komst í hámæli í fyrrasumar er greint var frá því að kostnaður við byggingu íbúðanna hefði farið 400 milljónir fram úr áætlunum. 400 milljóna króna aukakostnaðurinn stafaði af vanreiknuðum fjármagnskostnaði, sem fór framhjá öllum eftirlitsaðilum sem að málinu komu. Í bréfinu segir Sigríður að upphaflega hafi staðið til að byggja tvær fjögurra hæða blokkir með alls 52 íbúðum, en síðar hafi verið ákveðið að bæta einni hæð ofan á hvort hús svo úr urðu 68 íbúðir. „Þetta var óheppilegt því þetta ruglaði alla áætlanagerð,“ segir Sigríður.
Þegar hafði verið samið við væntanlega kaupendur um verð, en til að mæta auknum kostnaði hugðist félagið hækka umsamið kaupverð um 11%. „Eðlilega tóku þeir [kaupendur] því ekki vel. Það hefði enginn gert,“ segir Sigríður. „Ég skildi mjög vel að kaupendurnir væru ósáttir en við vildum gera allt sem hægt væri til að ná sátt þannig að félagið gæti starfað áfram. Það eru yfir 12 þúsund manns í félaginu og við höldum úti öflugu félagsstarfi, höldum fræðslufundi, vinnum að ferðamálum innan lands og utan, og það hefði verið sorglegt að þurfa að hætta allri þessari starfsemi. Sem betur fer þurfti ekki að koma til þess,“ segir Sigríður.
Eftir stífar samningaviðræður slógu félagið, banki og verktaki af kröfum sínum og fór svo að félagið bauð 40% afslátt á áður boðaðri hækkun, þ.e. um 250 milljóna hækkun í stað 400 milljóna, og var verð þá að sögn Sigríðar enn 17-20% undir markaðsvirði. „Engu að síður var þetta enn hærra en verð samkvæmt kaupsamningum og kaupendur ekki allir á eitt sáttir. Auðvitað er eðlilegt að fólk hafi verið ergilegt og pirrað því þetta snerist um milljónir króna og það eru háar upphæðir fyrir alla.“
Að lokum tókst félaginu að semja við flesta væntanlega kaupendur en í því fólst meðal annars að FEB féll frá kauprétti sínum að íbúðunum, þ.e. rétti sem félagið hafði til að kaupa íbúðir að nýju innan þriggja ára.
Sigríður segist aðeins geta talað frá hjarta sínu varðandi mögulegan lærdóm af málinu, frekar en fyrir hönd stjórnar. „Þetta verkefni var að mínu mati of stórt og flókið fyrir félagið. Frekar myndi ég leggja til að leita samstarfs við félög sem eru að byggja fyrir aldraða eða láta verkefni sem þessi alfarið frá okkur. Félagið hefur ekki burði til að standa í svona stórbyggingum. Þegar ég lít til baka er það kraftaverk að okkur tókst bæði að bjarga félaginu og að kaupendur fengu góðar íbúðir á góðu verði.“