Rannsókn á máli Kristjáns Gunnars Valdimarssonar, lögmanns og fyrrverandi lektors í skattarétti við Háskóla Íslands, er nú lokið.
Fram kemur á vef RÚV að málið sé nú hjá ákærusviði lögreglunnar þar sem ákvörðun verður tekin um kæru.
Kristján Gunnar var handtekinn á heimili sínu í Vesturbæ Reykjavíkur aðfaranótt aðfangadags í fyrra, grunaður um að hafa frelsissvipt unga konu í allt að tíu daga og brotið kynferðislega gegn henni. Hann var látinn laus að lokinni skýrslutöku en handtekinn að nýju að morgni jóladags, þá grunaður um að hafa frelsissvipt tvær konur og brotið gegn þeim.
Kristján var þá úrskurðaður í gæsluvarðhald til 29. desember. Lögregla fór fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir Kristjáni Gunnari á grundvelli rannsóknar- og almannahagsmuna. Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur höfnuðu kröfu lögreglunnar.