Varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu segir að þegar hús brennur eins mikið og í Kaldaseli í Breiðholti sé það nánast ónýtt. Það sem ekki eyðilagðist í reyknum hafi vatnið og frostið eyðilagt. Telur hann að um altjón sé að ræða.
Tryggingafélag og eigandi hússins muni í framhaldinu koma sér saman um hvort húsið verði byggt þarna aftur.
Ekki er ljóst varð til þess að eldurinn kviknaði í þaki einbýlishússins. Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsakar eldsupptökin.
Heimir Ríkharðsson lögreglufulltrúi segist ekki vita hvenær hún lýkur störfum. Þangað til getur hann ekkert sagt til um eldsupptökin.
Einn var í húsinu og tókst honum að komast út úr því.
Slökkviliðið var kallað að húsinu að morgni mánudags. Slökkvistarfinu lauk síðar um daginn. Eldur kviknaði aftur í þakinu um kvöldið og náðist að slökkva hann síðar sama kvöld.