„Hef trú á að brúin trompi allt“

Sigurður Ingi Jóhannsson kynnti skýrslu um Sundabraut á fundi í …
Sigurður Ingi Jóhannsson kynnti skýrslu um Sundabraut á fundi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að með nýrri skýrslu um Sundabraut megi líta svo á að komin sé loka niðurstaða um legu brautarinnar og að Sundabrú verði sá kostur sem unnið verði með héðan í frá. Hann vill að vinna hefjist strax við undirbúning.

Sigurður Ingi segir í samtali við mbl.is að með skýrslunni hafi allir aðilar sem komu að málinu orðið sammála um besta kostinn, en í hópnum voru fulltrúar frá Vegagerðinni, Reykjavíkurborg, Faxaflóahöfnum og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Um er að ræða um 30 metra háa brú sem á að liggja frá Sæbraut við Holtaveg og yfir Kleppsvíkina í Grafarvog, þar sem tenging verður um Hallsveg og svo áfram á Geldingarnes og Kjalarnes. Horft er til þess að brúin verði tvær akreinar í hvora átt auk göngu og hjólastígs.

Saga Sundabrautar er orðið áratugalöng, en eftir aldamót var stefna Reykjavíkurborgar fara gangnaleið á meðan Vegagerðin horfði til lágbrúar. Með aðalskipulagi  Reykjavíkurborgar fyrir 2010-2030 var í raun lokað fyrir flesta möguleika nema göng og var málið þá komið í vissa pattstöðu.

Sigurður Ingi skipaði síðar starfshóp um sundabraut þar sem áttu sæti fulltrúar ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Lá niðurstaða þess hóps fyrir árið 2019 og var á þá leið að fýsilegast væri að skoða jarðgöng yfir í Gufu­nes og lág­brú sem þver­ar hafn­ar­svæðið við Klepps­vík. 

Skipaði Sigurður Ingi í kjölfarið starfs­hóp til að end­ur­meta og skoða þessa tvo kosti um legu Sunda­braut­ar og gera til­lögu að framtíðarlausn sem festa átti í skipulagi. Skýrslan sem kynnt var í dag var niðurstaða þess hóps.

Starfshópurinn telur að kostnaður við brúarleið væri lægri, brú henti …
Starfshópurinn telur að kostnaður við brúarleið væri lægri, brú henti betur fyrir alla ferðamáta og almenningssamgöngur og að ný Sundabraut á brú bæti samgöngur innan höfuðborgarsvæðisins og til og frá borginni. Graf/mbl.is

„Samkomulag um að þetta sé besti valkosturinn

„Ég er sammála því að þarna sé komin skynsamleg leið til að höggva á allar ágreiningsleiðir. Nú þurfi bara að fara í næsta feril,“ segir Sigurður Ingi við mbl.is. Vísar hann þar til þess að næstu skref séu umhverfismat og nauðsynlegar skipulagsbreytingar á aðalskipulagi sem áður hafði útilokað brúarleiðina.

Segist hann líta á að allir aðilar sem komu að málinu séu sammála um þessa lausn. „Ég get ekki svarað fyrir pólitíska fulltrúa í Reykjavík, en þeirra æðstu embættismenn á skipulagssviði hafa tekið þátt í þessu og skrifað undir þetta plagg svona. Ég lít svo á að það sé samkomulag um að þetta sé besti valkosturinn,“ segir Sigurður Ingi.

Er þá komin lokaniðurstaða um að Sundabrú verði fyrir valinu þegar komi að Sundabraut? „Já, ég hef trú á að brúin trompi allt,“ segir Sigurður Ingi. „Í mínum huga eru göngin aðeins valkostur í umhverfismati til að bera saman við brúna.“

Fram kemur í skýrslunni að hægt væri að sinna undirbúningsstarfi fyrir verkefnið á næstu fjórum árum og hefja framkvæmdir árið 2025 og að fullklár Sundabrú væri tilbúin árið 2029 eða 2030. Sigurður Ingi segir að þarna sé horft til þess að bæði breytingar á aðalskipulagi og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins yrðu unnar samhliða umhverfismati. Slík vinna ætti almennt að taka 2-3 ár, en menn gefi sér fjögur ár í þessu tilfelli. Segir hann að á því tímabili yrði einnig hægt að fara í undirbúning við hönnun framkvæmdarinnar.

„Til þess fórum við í þetta“

Sigurður Ingi bendir á að stóra spurningin þegar komi að framkvæmdum sé svo hvort horft verði til þess að vinna bæði áfanga 1 og áfanga 2 samhliða, eða hvort brúin yfir Kleppsvíkina verði kláraður fyrst áður en farið verði í vinnu við Sundabraut áfram frá Grafarvogi upp á Kjalarnes.

Spurður hvort hann muni beita sér fyrir því að verkefnið fari af stað strax segir Sigurður Ingi: „Klárlega. Til þess fórum við í þetta.“

Brúin fer beint yfir athafnasvæði Samskipa

Brúin á að verða allt að 35 metra há og með 30 metra siglingahæð undir 100 metra breitt haf þar sem stór skip geta siglt undir. Stærstu flutningaskip munu hins vegar ekki geta siglt þar undir, en Vogabakki, hafnarbakki Samskipa, er sunnan við fyrirhugaða brú. Í skýrslunni kemur fram að Samskip hafi gert athugasemdir við mögulega legu Sundabrúar, enda færi hún einnig þvert yfir athafnasvæði fyrirtækisins. Er gerð krafa um að Vogabakki verði lengdur til norðurs út fyrir brúna og að ný hafnartenging verði lögð frá Sæbraut að hafnarsvæðinu, á milli Klepps og Holtagarða.

Miðað við þá útfærslu sem horft er til væri farið …
Miðað við þá útfærslu sem horft er til væri farið frá Holtavegi áleiðis norður nýja Sundabrú. Færi brúin þá yfir núverandi athafnarsvæði Samskipa. Kort/samgönguráðuneytið

Spurður út í þetta atriði og hvort standi til að verða við þessum atriðum segir Sigurður Ingi  að ljóst sé að flutningaskip séu aðeins að stækka. Því sé bæði nauðsynlegt og raunhæft að stækka þurfi Vogabakka.

Segir hann samtal hafa átt sér stað við stóru aðilana á svæðinu og nefnir hann þar meðal annars Samskip, Eimskip, Byko og Húsasmiðjuna. Segir Sigurður Ingi að útfærslan í skýrslunni geri ráð fyrir að hæðarmunur frá Sæbraut og niður að höfn verði nýttur þannig að brúin muni standa vel yfir athafnasvæði Samskipa og sé það lykill að útfærslu sem fyrirtækin geti sætt sig við.

Alútboð kemur vel til greina

Alþingi hefur samþykkt að Sundabraut geti verið eitt af svokölluðum PPP-verkefnum, en þá er átt við samvinnuframkvæmdir á milli ríkis og einkaaðila. Sigurður Ingi segir að enn sé ekki búið að taka ákvörðun um fjármögnun Sundabrautar, en PPP-leiðin bjóði upp á nokkrar mismunandi útfærslur. Allt frá alútboði, þar sem einkaaðilar myndu sjá um hönnun, framkvæmd og að lokum rekstur, og upp í blandaðar leiðir með mismunandi mikilli aðkomu hins opinbera og einkaaðila. Segir Sigurður Ingi að alútboði komi vel til greina í þessu máli.

„Það er reiknað með notendagjöldum

Annað sem hefur ítrekað komið upp þegar rætt er um Sundabraut er hvort greiða þyrfti veggjöld fyrir þá sem nota mannvirkin. Sigurður Ingi segir að ef um verði að ræða samvinnuframkvæmd þá verði veggjöld. „Það er reiknað með notendagjöldum. Þróunin hefur verið að notast við notendagjöld en ekki olíugjöld,“ segir hann og bætir við að frekari upplýsingar um hvernig gjaldtaka gæti verið framkvæmd komi í kjölfarið á nýjum umferðaspálíkönum sem Vegagerðin er að vinna um umferð á höfuðborgarsvæðinu.

Á fundinum fór Sigurður Ingi yfir legu brautarinnar og að …
Á fundinum fór Sigurður Ingi yfir legu brautarinnar og að Sundabrú væri sá valkostur sem horft væri til. mbl.is/Árni Sæberg

„Það veitir ekki af 2+2 fyrir almenna umferð“

Umferð um Sundabraut myndi stytta vegalengd frá höfuðborgarsvæðinu upp á Akranes um 5-8 km, en auk þess myndi það hafa mikil áhrif fyrir íbúa Grafarvogs vegna tengingar í gegnum Hallsveg. Sigurður Ingi segir að jarðgöng hefðu farið talsvert lengra og ávinningur fyrir íbúar þar því ekki jafn augljós. Hann segir lang mestu áhrifin þó verða fyrir íbúa Mosfellsbæjar þegar umferðin úr bænum færist af Vesturlandsvegi. Þá segir Sigurður Ingi að Sundabrautin opni á mögulega uppbyggingu fyrir íbúðabyggð og atvinnuþróun á leiðinni upp á Kjalarnes, en brautin á m.a. að fara í gegnum Geldingarnes og Álfsnes.

Brúin bætir að sögn Sigurðar einnig möguleika fyrir almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Spurður hvort hann sé þar að horfa til borgarlínu eða almennra strætósamgangna segir Sigurður Ingi að þar horfi hann til beggja möguleika. Þar sem eitt aðalatriði borgarlínu hefur verið sérakrein liggur því við að spyrja hvort hann sjái fyrir sér að önnur akreinin í báðar áttir verði undir almenningssamgöngur. Sigurður Ingi segir að svo sé þó ekki. Miðað við umferðarspá sé að öllum líkindum þörf fyrir tvær akreinar í báðar áttir fyrir almenna umferð. „Það veitir ekki af 2+2 fyrir almenna umferð,“ segir hann.

Þá nefnir Sigurður Ingi að göngu- og hjólastígur á brúnni bæti verulega samgöngur fyrir þennan hóp úr Grafarvogi. Spurður hvort þetta hafi verið krafa eins aðila segir Sigurður Ingi svo ekki vera heldur hafi verið horft til þess frá upphafi að brúin væri fyrir fjölbreytta ferðamáta.

Á meðfylgjandi korti má sjá mismunandi útfærslur sem horft hefur …
Á meðfylgjandi korti má sjá mismunandi útfærslur sem horft hefur verið til við gerð Sundabrautar. Kort/Samgönguráðuneytið

Fjármunir að sjálfsögðu settir inn á næstu árum ef þá vantar

Þegar kemur að kostnaði næstu árin í tengslum við hönnun og annan kostnað segir Sigurður Ingi að slíkt ætti að verða minni háttar þangað til framkvæmdir fara af stað. „En ef það kemur til að það þurfi viðbótar fjármuni í það verður það að sjálfsögðu gert,“ segir hann, en bætir við að stærstu bitarnir séu nú hjá sveitarfélögum varðandi skipulagsvinnu og svo hjá Umhverfisstofnun varðandi umhverfismatið. Segir hann jafnframt að hann viti ekki til annars en að ríkisstjórnin sé samstíga um að koma málinu af stað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert