Framsókn nær vopnum sínum

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Hari

Framsóknarflokkurinn yrði þriðji stærsti flokkurinn á þingi og fengi um 12,7% ef boðað væri til kosninga nú, ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar MMR. Fylgi flokksins eykst um rúmt prósentustig milli mánaða en það hefur aukist nokkuð frá því flokkurinn hlaut sína verstu mælingu í október, um 6,7%.

Litlar breytingar eru annars á fylgi flokka milli mánaða. Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærstur í könnuninni, en 21,0% segjast myndu kjósa flokkinn. Samfylkingin er næststærst með 13,8% fylgi og eykst það lítillega milli mánaða.

Þar á eftir koma Vinstri-græn með 11,7%, Píratar með 11,5% og Viðreisn með 10,0%. Miðflokkurinn nýtur stuðnings 9,3% kjósenda og Flokkur fólksins 5,1%. Þá fengi Sósíalistaflokkurinn atkvæði 3,8% kjósenda, en það myndi að öllum líkindum ekki nægja til þingsætis.

Stuðningur við ríkisstjórnina er 53,7% eða nokkru hærri en samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja, líkt og hefur verið raunin allt kjörtímabilið. Samanlagt myndu um 45,4% kjósenda greiða ríkisstjórnarflokkunum þremur, Sjálfstæðisflokki, Vinstri-grænum og Framsóknarflokki, atkvæði sitt.

Ekki er útilokað að slíkt nægi til að halda þingmeirihluta, vegna misvægis atkvæða á milli kjördæma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert