Lofa því að borga 450 milljónir með ríkinu

Krabbameinsfélagið samþykkti á aðalfundi sínum að heita 450 milljóna króna …
Krabbameinsfélagið samþykkti á aðalfundi sínum að heita 450 milljóna króna mótframlagi á móti ríkinu til fjármögnunar á nýrri deild blóð- og krabbameinslækninga. Ljósmynd/Samsett

Samþykkt var á aðalfundi Krabbameinsfélagsins í dag að félagið veiti 450 milljónir króna í byggingu nýrrar dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga á Landspítalanum, gegn því að stjórnvöld setji uppbyggingu deildarinnar í forgang. Þannig verði hægt að taka nýja deild í notkun árið 2024.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá félaginu en þar segir einnig að tillagan hafi verið samþykkt með dynjandi lófataki á fundinum, sem fram fór á Selfossi í dag.

Félagið skorar á stjórnvöld að grípa til aðgerða, segja lausnina vera til og að aðeins þurfi að hrinda henni í framkvæmd.

Deildin í húsnæði sem hentar illa

Samkvæmt svokallaðri krabbameinsáætlun er Landspítalanum falið að gegna lykilhlutverki í þjónustu við krabbameinssjúklinga, bæði varðandi greiningu og meðferð, til ársins 2030.

Vegna þessa fá flestir krabbameinssjúklingar lyfjameðferð á þeirri dagdeild sem nú er í notkun, en í tilkynningu Krabbameinsfélagsins segir að hún sé staðsett í elsta hluta Landspítalans – húsnæði sem henti starfseminni illa og sé of lítið til þess að sjúklingum sé sem best sinnt.

„Markmið hér á landi er að árangur í baráttunni gegn krabbameinum sé á heimsmælikvarða. Til að viðhalda þeim góða árangri af krabbameinsmeðferð sem er hér á landi og gera enn betur þarf aðstaða sjúklinga og aðstandenda að vera fyrsta flokks.

Til að laða að sérhæft starfsfólk og gera því kleift að sinna sínu starfi á bestan hátt verður aðstaðan að sama skapi að standast samanburð við það sem best gerist erlendis. Til þess þarf að byggja nýja deild,” segir meðal annars í tilkynningu Krabbameinsfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert