Halla kýs að halda trúnað

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir …
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Samsett mynd

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segist vilja halda trúnað um það sem rætt var á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í mars á þessu ári og staðfestir þannig ekki að hún hafi verið innt eftir afsökunarbeiðni af hálfu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. 

Fram kom í hádegisfréttum RÚV í dag að Halla Bergþóra hefði lýst því á lokuðum fundi nefndarinnar að Áslaug Arna hefði innt hana eftir afsökunarbeiðni, með símtali á aðfangadag í fyrra, vegna dagbókarfærslu lögreglu kvöldið áður, sem hratt af stað Ásmundarsalarmálinu. 

„Líkt og fram hefur komið óskaði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis eftir því að ég svaraði spurningum nefndarinnar um samskipti okkar dómsmálaráðherra þennan dag. Ég kýs að virða trúnað sem ríkir um það sem kom fram efnislega og tel ekki rétt að fjalla nánar um efni þessara samskipti en ég hef þegar gert,“ segir Halla í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is. Hún var spurð hvort hún gæti staðfest að Áslaug hafi innt hana eftir afsökunarbeiðni. 

Símtöl Áslaugar innan marka

Halla segir að sér þyki tvö símtöl ráðherra og hennar sjálfrar á aðfangadag í fyrra, þegar ljóst var að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefði verið viðstaddur gleðskap í Ásmundarsal þar sem sóttvarnalög voru brotin, hafi verið innan marka þeirrar heimildar sem ráðherra er gefin. 

„Ég hef skýrt frá því að ég og ráðherra áttum tvö samtöl þennan dag og að þau hafi snúið að upplýsingagjöf lögregluembættisins vegna sóttvarnabrotsins í Ásmundarsal.

Ég vil árétta það sem áður hefur komið fram að ég taldi efni þessara samtala rúmast innan þeirra heimilda sem ráðherra hefur til upplýsingaöflunar frá forstöðumanni stofnunar sem undir hana heyrir og kveðið er á um í stjórnarráðslögum nr. 115/2011. Það er enn fremur mitt mat að samskiptin hafi ekki falið í sér afskipti af rannsókn umrædds máls.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert