Aldrei opnað þessa „vitleysu“ hefði hann vitað

Lögregla og viðbragðsaðilar á vettvangi í dag.
Lögregla og viðbragðsaðilar á vettvangi í dag. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Gunn­ar Gunn­ars­son, for­stjóri Perlunn­ar, sér eft­ir að hafa opnað hoppu­kastal­ann á Ak­ur­eyri og seg­ist ekki ætla að opna hann aft­ur eft­ir slysið. Hann tek­ur fram að börn­in hafi verið 63 sem voru í kast­al­an­um þegar slysið varð en ekki 108.

Hoppu­kastal­inn Skrímslið, sem tókst á loft, er á veg­um Perlunn­ar. Gunn­ar Gunn­ars­son er for­stjóri Perlunn­ar og seg­ist hann ekki skilja hvernig þetta gat gerst. 

Skrímslið hef­ur verið opið á Ak­ur­eyri frá 17. júní og hef­ur allt gengið mjög vel til þessa að sögn Gunn­ars. 

Óvænt­ur svipti­vind­ur

„Það er ákvörðun tek­in á staðnum um það að hafa opið í vindi,“ seg­ir Gunn­ar. Vind­hraðinn sem miðað er við er 10 til 12 metr­ar á sek­úndu. Á Ak­ur­eyri í morg­un voru fjór­ir til fimm metr­ar á sek­úndu, að sögn Gunn­ars. 

Gunnar Gunnarsson, forstjóri Perlunnar.
Gunn­ar Gunn­ars­son, for­stjóri Perlunn­ar. Krist­inn Magnús­son

Hon­um var mikið niðri fyr­ir þegar blaðamaður náði tali af hon­um. „Ég væri kom­inn til Ak­ur­eyr­ar ef ég gæti.“ Gunn­ar seg­ist hafa rætt við þrjá for­eldra sem voru á staðnum, björg­un­araðila og starfs­menn bæj­ar­ins, öll­um hafi borið sam­an um að það hafi ekki verið mik­ill vind­ur á svæðinu.

Óvænt­ur svipti­vind­ur virðist hafa kom­ist und­ir eitt horn hoppu­kastal­ans og lyft því frá jörðu með þeim af­leiðing­um að fest­ing­arn­ar gáfu sig. „Þetta er allt fest niður og á ekki að geta losnað en eitt hornið fer upp og þetta gerðist,“ seg­ir Gunn­ar. 

Aðeins eitt hornið sem lyft­ist

„Mér þykir þetta al­ger­lega öm­ur­legt í alla staði. Ég hefði aldrei opnað þessa vit­leysu ef ég hefði vitað að þetta væri séns,“ seg­ir hann svo. 

Varðandi frétta­flutn­ing af mál­inu bend­ir Gunn­ar á að kast­al­inn sé 1.600 metr­ar og geti því ekki haf­ist á loft, það hafi aðeins verið hornið á hon­um sem lyft­ist. 

Skorið var á kast­al­ann til að tæma loftið en Gunn­ar seg­ir það ekki skipta öllu máli. Hann ætl­ar sér ekki að opna kast­al­ann aft­ur á Ak­ur­eyri. 

Perl­an starf­ræk­ir einnig hoppu­kastala í Öskju­hlíðinni í Reykja­vík, sam­bæri­leg­an þeim sem hef­ur verið á Ak­ur­eyri. Gunn­ar seg­ir að aðstæður séu ekki al­veg þær sömu á báðum stöðum en það sé sér­stak­ur vind­mæl­ir við kast­al­ann í Reykja­vík. „Við mun­um fara yfir okk­ar mál og reyna að bæta hlut­ina,“ seg­ir hann.

63 börn en ekki 108

Að sögn Gunn­ars var tal­an frá lög­reglu ekki rétt, börn­in í kast­al­an­um hafi verið 63 en ekki 108 eins og kom fram í til­kynn­ingu. Hann seg­ir að tví­taln­ing hljóti að hafa átt sér stað en í sölu­kerfi Perlunn­ar megi sjá að ein­ung­is 63 miðar voru seld­ir. Hann seg­ir að börn geti ekki farið inn í kast­al­ann nema þau séu skráð inn og því stand­ist ekki sú tala sem komið hef­ur fram. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka