Aldrei opnað þessa „vitleysu“ hefði hann vitað

Lögregla og viðbragðsaðilar á vettvangi í dag.
Lögregla og viðbragðsaðilar á vettvangi í dag. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Gunnar Gunnarsson, forstjóri Perlunnar, sér eftir að hafa opnað hoppukastalann á Akureyri og segist ekki ætla að opna hann aftur eftir slysið. Hann tekur fram að börnin hafi verið 63 sem voru í kastalanum þegar slysið varð en ekki 108.

Hoppukastalinn Skrímslið, sem tókst á loft, er á vegum Perlunnar. Gunnar Gunnarsson er forstjóri Perlunnar og segist hann ekki skilja hvernig þetta gat gerst. 

Skrímslið hefur verið opið á Akureyri frá 17. júní og hefur allt gengið mjög vel til þessa að sögn Gunnars. 

Óvæntur sviptivindur

„Það er ákvörðun tekin á staðnum um það að hafa opið í vindi,“ segir Gunnar. Vindhraðinn sem miðað er við er 10 til 12 metrar á sekúndu. Á Akureyri í morgun voru fjórir til fimm metrar á sekúndu, að sögn Gunnars. 

Gunnar Gunnarsson, forstjóri Perlunnar.
Gunnar Gunnarsson, forstjóri Perlunnar. Kristinn Magnússon

Honum var mikið niðri fyrir þegar blaðamaður náði tali af honum. „Ég væri kominn til Akureyrar ef ég gæti.“ Gunnar segist hafa rætt við þrjá foreldra sem voru á staðnum, björgunaraðila og starfsmenn bæjarins, öllum hafi borið saman um að það hafi ekki verið mikill vindur á svæðinu.

Óvæntur sviptivindur virðist hafa komist undir eitt horn hoppukastalans og lyft því frá jörðu með þeim afleiðingum að festingarnar gáfu sig. „Þetta er allt fest niður og á ekki að geta losnað en eitt hornið fer upp og þetta gerðist,“ segir Gunnar. 

Aðeins eitt hornið sem lyftist

„Mér þykir þetta algerlega ömurlegt í alla staði. Ég hefði aldrei opnað þessa vitleysu ef ég hefði vitað að þetta væri séns,“ segir hann svo. 

Varðandi fréttaflutning af málinu bendir Gunnar á að kastalinn sé 1.600 metrar og geti því ekki hafist á loft, það hafi aðeins verið hornið á honum sem lyftist. 

Skorið var á kastalann til að tæma loftið en Gunnar segir það ekki skipta öllu máli. Hann ætlar sér ekki að opna kastalann aftur á Akureyri. 

Perlan starfrækir einnig hoppukastala í Öskjuhlíðinni í Reykjavík, sambærilegan þeim sem hefur verið á Akureyri. Gunnar segir að aðstæður séu ekki alveg þær sömu á báðum stöðum en það sé sérstakur vindmælir við kastalann í Reykjavík. „Við munum fara yfir okkar mál og reyna að bæta hlutina,“ segir hann.

63 börn en ekki 108

Að sögn Gunnars var talan frá lögreglu ekki rétt, börnin í kastalanum hafi verið 63 en ekki 108 eins og kom fram í tilkynningu. Hann segir að tvítalning hljóti að hafa átt sér stað en í sölukerfi Perlunnar megi sjá að einungis 63 miðar voru seldir. Hann segir að börn geti ekki farið inn í kastalann nema þau séu skráð inn og því standist ekki sú tala sem komið hefur fram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka