Beiðast nýs mats í hoppukastalamáli

Hoppukastalinn Skrímslið er 1.720 fm að stærð og vegur sex …
Hoppukastalinn Skrímslið er 1.720 fm að stærð og vegur sex tonn. Tíu börn hlutu meiðsli þegar eitt horna hans fauk upp 1. júlí 2021. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta snýr að nýrri matsbeiðni sem þrír ákærðu standa saman að því að leggja fram,“ segir Einar Oddur Sigurðsson, einn verjenda í hoppukastalamálinu svokallaða á Akureyri, í samtali við mbl.is, spurður út í fyrirtöku í málinu við Héraðsdóm Norðurlands eystra í gær.

Segir Einar matsbeiðnina á vegum þeirra þriggja, af fimm ákærðu í málinu, sem eru á vegum Ævintýralands Perlunnar, eiganda hoppukastalans. Hinir tveir eru forsvarsmenn Knattspyrnufélags Akureyrar en rekstur hoppukastalans á Akureyri var í samstarfi við handknattleiksdeild félagsins.

Listi yfir hugsanlega matsmenn

Í nýju matsbeiðninni sé að finna nokkrar viðbótarspurningar sem beiðendur telji nauðsynlegt að fá svör við til að varpa frekara ljósi á málsatvik en tíu börn slösuðust 1. júlí 2021 þegar vindhviða reif hluta kastalans, sem er 1.720 fermetrar að flatarmáli, upp með þeim afleiðingum að eitt horn hans lyftist marga metra frá jörðu og lagðist inn yfir hoppflöt kastalans en 108 börn voru þá við leik í honum.

„Lagður var fram listi yfir verkfræðinga og veðurfræðinga og fallist dómari á beiðni um nýtt mat finnur hann tvo matsmenn til að svara þessum spurningum,“ segir Einar og kveðst reikna með úrskurði fljótlega um hvort dómari fallist á nýju matsbeiðnina eður ei.

Ákæruvaldið þungt í taumi

Við fyrirtökuna í gær hafi verið rætt hvort þörf væri á þessu nýja mati. „Ákæruvaldið maldaði svolítið í móinn, sem er dálítið sérstakt,“ þykir verjandanum, „að vilja ekki fá inn í málið nýtt mat sem í raun svarar því með nánari hætti hvað það er sem gerðist. Þeir telja þetta bara skýrt, að það sé einhvers konar gáleysi fyrir hendi og ekki staðið nógu vel að uppsetningu og eftirliti,“ útskýrir hann.

Málið sé þar með tvíþætt, uppsetningin hafi heyrt undir þremenningana frá Ævintýralandi Perlunnar en eftirlit með kastalanum eftir það verið í höndum fulltrúanna tveggja frá íþróttafélaginu. Sem fyrr segir reiknar Einar með úrskurði héraðsdómara um nýju matsbeiðnina upp úr páskum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert