Einn hefur verið fluttur suður til Reykjavíkur með sjúkraflugi eftir slys sem varð þegar hoppukastali tókst á loft á Akureyri.
Hinir sex sem fluttir voru á sjúkrahús eru minna slasaðir og fá aðhlynningu á Akureyri.
Fjöldahjálparstöð hefur verið lokað í dag en minnt er á hjálparsíma Rauða krossins. Viðbragðshópur Rauða krossins verður í húsnæði hans í Viðjulundi 2 á Akureyri milli kl. 14 og 15 föstudaginn 2. júlí þar sem fólk getur leitað aðstoðar.
Þetta kemur fram í tilkynningu á facebooksíðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
„Það fóru mjög margir þarna í gegnum skautahöllina og fengu liðsinni okkar fólks en ég er ekki með töluna á því,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, í samtali við mbl.is.
„Við minnum á það að hjálparsími Rauða krossins er alltaf opinn, 1717, ef einhverjir hafa þörf fyrir að ræða málin og fá stuðning eftir því sem frá líður. Viðbragðshópurinn okkar verður með viðveru á morgun í húsnæði Rauða krossins á Akureyri frá 2-3. Auðvitað getur áfallið komið seinna og gott að geta leitað til einhvers,“ segir Gunnlaugur.