Tók talsverðan tíma að leita í kastalanum

Mikil ringlureið var á vettvangi þegar viðbragðsaðilar mættu.
Mikil ringlureið var á vettvangi þegar viðbragðsaðilar mættu. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Hóp­slys varð á Ak­ur­eyri í dag þar sem fjöl­mörg börn voru um borð í hoppu­kastala sem fauk upp í loft. Var allt til­tækt lið kallað út að sögn Gunn­ars Rún­ar Ólafs­son­ar, varaslökkviliðsstjóra á Ak­ur­eyri.

Gunn­ar Rún­ar var með þeim fyrstu sem komu á vett­vang eft­ir að hringt hefði verið í Neyðarlín­una og til­kynnt um marga slasaða.

„Við feng­um út­kall frá Neyðarlín­unni í kring­um tvöleytið og út­kallið hljómaði upp á mjög marga slasaða þannig að við kölluðum út allt okk­ar lið. Þegar við kom­um á vett­vang var tals­vert af slösuðu fólki,“ seg­ir Gunn­ar.

Mik­il ringul­reið á vett­vangi

Hann seg­ir að þegar viðbragðsaðilar komu á vett­vang var hoppu­kastal­inn niður­fall­inn og grun­ur um að mörg börn væru föst í kast­al­an­um.

„Það upp­hófst mik­il leit í kast­al­an­um og hann var mjög þung­ur. Við leituðum af okk­ur all­an grun á meðan hluti af liðinu var að sinna slösuðum. Það tók tals­verðan tíma að leita og ganga úr skugga um það að eng­inn væri fast­ur í hon­um. Síðan þegar við vor­um bún­ir að leita af okk­ur all­an grun þá byrjuðum við að safna sam­an fólki sem var í þessu slysi í skauta­höll­ina og byrjuðum að veita því áfalla­hjálp og slíkt.“

Gunn­ar bæt­ir við að mik­il ringul­reið var á staðnum þegar slökkviliðið kom á vett­vang.

„Þegar við kom­um var mik­il ringul­reið en við náðum fljótt tök­um á því, það voru liðsstjór­ar þarna yfir liðum sem voru að keppa á N1-mót­inu. Við feng­um þau til þess að safna sín­um krökk­um sam­an og halda þeim til hliðar. Þeir sem horfðu á þetta ger­ast voru í miklu áfalli.“

Mikill viðbúnaður var á svæðinu.
Mik­ill viðbúnaður var á svæðinu. mbl.is/​Mar­grét Þóra Þórs­dótt­ir

Mikið þrek­virki

„Það var mikið þrek­virki unnið þarna. Það kom að þarna fjöldi fólks; slökkviliðsmenn, slökkviliðsmenn á frívakt, lög­reglu­menn, lög­reglu­menn á frívakt, björg­un­ar­sveita­fólk og starfs­menn Rauða kross­ins.“

Gunn­ar seg­ir eitt barn hafa slasast al­var­lega og var það flutt með sjúkra­flugi til Reykja­vík­ur.

„Það er eitt barn al­var­lega slasað og tvö sem slösuðust minni hátt­ar svo flutt­um við aðra upp eft­ir sem við köll­um græna til skoðunar. Síðan voru ein­hverj­ir í and­legu áfalli sem fóru líka en svo kom Rauði kross­inn fljótt og tók yfir áfalla­hjálp­ina og safnaði sam­an öll­um inni í skauta­höll­inni.“

Öllum aðgerðum á svæðinu var lokið um fjög­ur­leytið að sögn Gunn­ars.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka