Fengu starfsleyfi skrímslisins aldrei í hendurnar

Börn að leik í hoppukastalanum á Akureyri.
Börn að leik í hoppukastalanum á Akureyri. mbl.is/ Margrét Þóra Þórsdóttir

Miklar og ítarlegar kröfur eru gerðar til rekstraraðila hoppukastala en starfsemin er starfsleyfisskyld að sögn Herdísar Storgaard.

„Skrímslið“ á Akureyri, þar sem slys varð í gær, ætti að starfa á grundvelli starfsleyfis frá Reykjavík en rekstraraðilum hefur láðst að framvísa því starfsleyfi til heilbrigðiseftirlits Akureyrar.

Herdís Storgaard, verkefnastjóri hjá Miðstöð slysavarna barna, þekkir staðlana sem stuðst er við í tengslum við starfsleyfi hoppukastala. Hún hefur boðið lögreglunni á Akureyri aðstoð við rannsókn málsins.

Herdís segir að kröfurnar sem gerðar eru til svona tækja séu mjög strangar. Þar komi fram hvers konar festingar eigi að nota og með hvaða hætti skuli reka þær niður. Einnig fylgir svona hoppuköstulum ákveðinn vindmælisskali sem miðað er við en hann er mismunandi eftir stærð kastalans. Gerð er krafa um að öryggisfulltrúi sé á vakt sem fylgist vel með sviptingum í vindi.

Herdís Storgaard hefur boðið lögreglu fram aðstoð við rannsókn málsins.
Herdís Storgaard hefur boðið lögreglu fram aðstoð við rannsókn málsins.

Í staðlinum er, að hennar sögn, sérstaklega tekið fram hversu oft þessi öryggisfulltrúi eigi að taka stöðuna á vindinum. Þá ber hann einnig ábyrgð á að athuga festingar reglulega, athuga mótorinn og mæla loftþrýstinginn í hoppukastalanum. Þessar athuganir eigi að framkvæma oft yfir daginn. Viðbragðsáætlun þurfi að vera tiltæk ef eitthvað reynist ekki eins og það á að vera.

Ekki er langt síðan þessir staðlar voru endurskoðaðir og heilmiklu bætt við þá, einmitt í tengslum við festingar og vindmælingar. Herdís segir að það hafi verið gert í kjölfar dauðaslysa á börnum, sem komu upp í Ástralíu og Bretlandi, vegna þess að hoppukastalar tókust á loft og steyptust til jarðar, eins og gerðist á Akureyri í gær.

Hefðu gjarnan viljað sjá starfsleyfið

Rekstur hoppukastala er starfsleyfisskyldur.

„Þetta er fyrirtæki sem er með aðsetur í Reykjavík og svo er starfsemin flutt norður og virðist fá stöðuleyfi hjá Akureyrarbæ. Það hafði hins vegar enginn samband við okkur hjá heilbrigðiseftirlitinu,“ segir Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.

„Með réttu hefði rekstraraðili átt að framvísa þessu starfsleyfi gagnvart heilbrigðisfulltrúa hér á staðnum en það var ekki gert, sama gildir um vinnueftirlitið.“

Alfreð segir að almennt séu fyrirtæki meðvituð um að þau þurfi að hafa samband við yfirvöld áður en þau hefja starfsemi á nýju svæði. Eitthvað virðist hafa fara úrskeiðis í þessu ferli, rekstraraðili hafi sjálfur átt að óska eftir skoðun eða þá skipulags- og byggingarfulltrúaembættið, hvorugt gerðist.

„Heilbrigðiseftirlitið hefði gjarnan viljað sjá starfsleyfið í heimahöfn, fara yfir skilyrði og ganga úr skugga um að verið væri að vinna í samræmi við það,“ segir Alfreð og bætir við að lítið gagn sé í eftirlitsaðila sem fréttir ekki fyrr en eftir á.

1.600 fermetrar

Herdís bendir á að framleiðendur hoppukastala þurfi að útbúa mjög ítarlegar leiðbeiningar til rekstraraðila til þess að hljóta vottun og mega selja vöru sína. Þar komi að jafnaði fram kröfur um lágmarksaldur starfsmanna og lágmarksfjölda þeirra miðað við stærð og fjölda barna sem hoppukastalinn tekur við. Einnig aldurstakmörk barnanna.

Þar ættu líka að koma fram upplýsingar um hvernig veður hefur áhrif á kastalann en vindfang svo stórra hoppukastala er afar mikið, en þess ber að geta að hoppukastalinn, sem fauk og ber nafnið skrímslið, er 1.600 fermetrar.

„Þetta losnar ekki nema eitthvað sé að.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka