Sex ára barn á gjörgæslu eftir hoppukastalaslysið

N1 mótið í knattspyrnu er í gangi á Akureyri og …
N1 mótið í knattspyrnu er í gangi á Akureyri og voru flest börnin í hoppukastalanum þátttakendur á því móti. mb.is/ Margrét Þóra Þórsdóttir

Barn sem flutt var með sjúkraflugi til Reykjavíkur eftir hoppukastalaslys á Akureyri í gær er sex ára gamalt og liggur nú á gjörgæslu Landspítalans. 

Barnið slasaðist illa eftir hátt fall úr hoppukastalanum skrímslinu, sem tókst á loft í gær, fullur af börnum. 

Greint var frá aldri barnsins og stöðu þess á vef Vísis en lögregla sagðist ekkert vita um afdrif barnsins þegar mbl.is hafði samband við hana.

Kristján Kristjánsson yfirlögregluþjónn er með tildrög slyssins til rannsóknar. Hann sagði að málið væri enn á algeru frumstigi og að niðurstöður myndu ekki liggja fyrir á næstunni.

Aðspurður hvort búist væri við umfangsmikilli rannsókn ítrekaði hann að málið væri á frumstigi og útilokaði ekki að það gæti tekið nokkrar vikur að komast til botns í því hvað nákvæmlega olli slysinu. 

Því hefur þó verið lýst að vindhviða hafi komist undir horn hoppukastalans með þeim afleiðingum að það þeyttist upp í loft og festingarnar gáfu sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka