Forsetinn veitti heiðursverðlaun RIFF

Forseti Íslands veitir Miu Hansen-Løve heiðursverðlaunin.
Forseti Íslands veitir Miu Hansen-Løve heiðursverðlaunin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kvikmyndaleikstjórunum Miu Hansen-Løve og Joachim Trier voru veitt heiðursverðlaun Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík (RIFF) nú síðdegis en verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi listræna sýn í kvikmyndagerð. Segir í tilkynningu að leikstjórarnir tveir séu meðal fremstu leikstjóra okkar tíma.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum en kvikmyndahátíðin RIFF var einnig sett í dag.

Mia Hansen-Løve hefur gert sjö kvikmyndir í fullri lengd sem hafa hlotið bæði verðlaun og lof gagnrýnenda að því er segir í tilkynningu. Í kvikmyndum sínum er hún sögð blanda saman því sjálfsævisögulega og skáldaða á athyglisverðan hátt.

Forseti Íslands veitir Joachim Trier heiðursverðlaunin.
Forseti Íslands veitir Joachim Trier heiðursverðlaunin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Joachim Trier hóf feril sinn strax á unglingsaldri með gerð hjólabrettamyndbanda. Síðar stundaði hann kvikmyndagerðarnám í Danmörku og Bretlandi þar sem stuttmyndir hans vöktu strax athygli. Segir í tilkynningu að verk hans séu tilfinninganæmar frásagnir af sálarflækjum fólks, þar sem tilvistarleg stef eru aldrei langt undan.

Trier gerði opnunarmynd RIFF í ár en hún ber heitið Verdens verste menneske, Versta manneskja í heimi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert