Listasafn Nínu Tryggvadóttur verði í Hafnarhúsi

Nína Tryggvadóttir með málverkasýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins.
Nína Tryggvadóttir með málverkasýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon

Una Dóra Copley, dóttir Nínu Tryggvadóttur listakonu, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafa undirritað samning um stofnun Listasafns Nínu Tryggvadóttur að því er segir í tilkynningu.

Safnið verður fyrsta myndlistasafn Reykjavíkurborgar sem verður kennt við og tileinkað íslenskri listakonu.

Undanfarna mánuði hefur meðal annars verið unnið að samningnum, skráningu safneignar, stofnskrá safnsins og erfðamálum. 

Una Dóra Copley, dóttir Nínu Tryggvadóttur listakonu.
Una Dóra Copley, dóttir Nínu Tryggvadóttur listakonu. mbl.is/Ásdís

Safnið mun koma til með að vera í austurhluta Hafnarhússins í Reykjavík en í vesturhluta þess er Listasafn Reykjavíkur til húsa. Þar með verður allt Hafnarhúsið lagt undir listastarfsemi. 

Gefur Reykvíkingum vel á annað þúsund listaverk

„Í samningnum er kveðið á um að Una Dóra Copley einkadóttir Nínu gefi Reykvíkingum vel á annað þúsund listaverk eftir móður sína sem endurspegla allan feril listakonunnar. Meðal annars málverk, teikningar, glerverk og vatnslitamyndir. Auk þess gefur Una Dóra Reykvíkingum fasteignir á Manhattan og í Reykjavík eftir sinn dag sem og aðrar listaverkaeignir, bókasafn og fleiri muni,“ segir í tilkynningunni. 

Nína Tryggvadóttir var fyrst og fremst þekkt sem listmálari en samdi einnig og myndskreytti bækur fyrir börn. Hún lærði listmálun við Det Kongelige Adademi for Skønne Kunster í Kaupmannahöfn en bjó síðar í París, London og lengst af í New York.

Segir þó í tilkynningunni að hún hafi ávallt haldið nánum tengslum við Ísland og hélt fjölmargar einkasýningar hér heima sem og erlendis.

Efna til hugarflugs vegna útfærslu á Hafnarhúsi

Fyrr í dag samþykkti Borgarráð að efnt verði til hugarflugs og samráðs vegna útfærslu á Hafnarhúsi, húsi myndlistar.

Segir í tilkynningunni að kallað verði eftir viðhorfum og hugmyndum til undirbúnings hönnunarsamkeppni þar sem útfærðar verði breytingar á Hafnarhúsi til að rúma Safn Nínu Tryggvadóttur og stækkun Listasafns Reykjavíkur.

Kallað verður eftir aðkomu fjölbreyttra fulltrúa listafólks og borgarbúa á öllum aldri. 

Listasafn Nínu Tryggvadóttur verður í austurhluta Hafnarhússinus en Listasafn Reykjavíkur …
Listasafn Nínu Tryggvadóttur verður í austurhluta Hafnarhússinus en Listasafn Reykjavíkur er í vesturhluta þess. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert