„Hef einu sinni heyrt talað um óalandi óargadýr“

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir málið geta verið …
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir málið geta verið fordæmisgefandi fyrir önnur börn. mbl.is/Hari

Öryrkjabandalag Íslands hefur tekið ákvörðun um að styrkja málsókn 17 ára gamallar stúlku á einhverfurófi gegn Mosfellsbæ, fyrir hönd Varmárskóla, fyrir að veita henni ekki viðunandi kennslu þegar hún þurfti á því að halda vegna veikinda sinna og fötlunar.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins (ÖBÍ), segir málið geta verið fordæmisgefandi fyrir önnur börn í svipaðri stöðu, enda sé ekki um einstakt tilfelli að ræða. Gríðarleg þörf sé á að endurmeta skólakerfið til að það geti mætt misjöfnum þörfum barna, en vandamálið felist aðallega í skorti á fagþekkingu innan skólanna.

Stefn­an gegn Mosfellsbæ er tvíþætt; ann­ars veg­ar er byggt á því að sú sjúkra­kennsla sem stúlkan fékk hafi verið af of skorn­um skammti, en hins veg­ar að kennsl­an hafi farið fram við óviðun­andi aðstæður.

Þuríður segir foreldra barna með fatlanir, líkt og einhverfu, leita reglulega til ÖBÍ eftir að hafa alls staðar lent á vegg innan skólakerfisins. „Þetta er auðvitað bara fólk sem er að leita úrræða fyrir börnin sín. En það er skylda skólanna að mæta börnunum þar sem þau eru. Það er ekki þannig að við fáum svona mál til okkar á hverjum degi en það er ástæða fyrir því að við ákváðum að styrkja þetta dómsmál,“ útskýrir hún í samtali við mbl.is.

Gat ekki útskrifast með eðlilegum hætti

Fyrsta lausn skól­ans á vanda stúlk­unn­ar var að bjóða henni upp á kennslu í glugga­lausu rými inn af læstri kompu í skól­an­um, sem meðal annars hefur verið lýst sem kústageymslu, þar sem hún fékk stop­ula kennslu ör­fáa klukku­tíma á viku.

Að sögn móður stúlkunnar var þetta sama rými notað sem „skammarkrókur“ fyrir börn sem sýna ógnandi eða ofbeldisfulla hegðun, en slík herbergi í grunnskólum hafa verið töluvert til umfjöllunar síðustu vikur og eru gjarnan kölluð „gula herbergið.“ Átti úrræðið að vera einhvers konar aðlögun fyrir stúlkuna en tilgangurinn var að reyna að efla hana félagslega.

Næsta lausn skól­ans var að veita sjúkra­kennslu í ör­fáa klukku­tíma á viku utan skól­ans. Var þessi háttur hafður á þrátt fyrir að bæði stúlkan og foreldrar hennar hefðu gert skólanum grein fyrir því að hún bæði gæti og vildi fá að læra meira. Þetta varð til þess að stúlkan, sem hafði orðið fyrir slæmu einelti í Varmárskóla, gat ekki útskrifast með eðlilegum hætti úr grunnskóla og gat því ekki sótt um þann framhaldsskóla sem hún hafði hug á.

Börnin koma jafnvel brotin út úr skólakerfinu

„Það er gríðarlega mikil þörf á að endurmeta skólakerfið þannig að það geti mætt misjöfnum þörfum barna og þetta þarf að líka að skoðast í samhengi við kennaranámið og þann stuðning sem er veittur inni í skólunum. Hvað skólarnir eiga að gera? Við erum með skólaskyldu og ef við ætlum að vera með „skóla án aðgreiningar“ þá verður það að virka í borði en ekki bara í orði,“ segir Þuríður og heldur áfram:

„Það er á svo víða sem pottur er brotinn og það er ekki af því kennarar vilji ekki gera betur, þeir hafa bara ekki haft verkfæri til þess. Það kemur auðvitað niður á börnum fyrst og fremst, sem fara í gegnum skólann og koma jafnvel brotin út úr skólakerfinu. Þá fara þau inn í erfitt fullorðinslíf.“

Þuríður segir að börn megi ekki upplifa sig sem ómögulega …
Þuríður segir að börn megi ekki upplifa sig sem ómögulega einstaklinga. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þuríður bendir einnig á að fjölskyldur þessara barna að mæta miklu meiri erfiðleikum heldur en fjölskyldur þeirra barna sem komast klakklaust í gegnum skólakerfið. „Þetta er svo mikið stríð foreldra að fá einhverja úrlausn fyrir börnin sín. Það verður að skoða kerfið heildstætt.“

Mikilvægt að brugðist sé rétt við 

Í athugun Umboðsmanns Alþingis á notkun einveruherbergja eða „gulra herbergja“ í grunnskólum kom fram að skólarnir teldu sig standa frammi fyrir nánast óleysanlegum vanda gagnvart nemendum með sérþarfir og hegðunarvanda, en börn á einhverfurófi geta fallið þar undir.

Kvörtuðu skólarnir bæði yfir skorti á fjarmagni og mannafla til að sinna þessum nemendum og óvissu yfir því hvaða heimildir starfsmenn hefðu til að bregðast við aðstæðum sem gætu komið upp.

Þuríður segir helsta vandamálið vera skort á fagþekkingu inni í skólunum sjálfum. „Bæði vantar í kennsluna sjálfa, að kennarar hafi ákveðin verkfæri til að mæta nemendum með ólíkar þarfir. Að allir sem ætla að verða kennarar fái þau verkfæri í hendurnar. Svo vantar fagaðila, stuðningsaðila inn í skólakerfið. Allt á þetta á að miða að því að barnið komi sem best og heilast frá skólagöngunni og fái þau tækifæri sem það mögulega getur haft inn í lífið.“

Hún segir svo mikilvægt brugðist sé rétt við þegar eitthvað kemur upp á hjá barninu í skólanum.

„Það er ekki lengur hægt að kenna barninu eða foreldrunum um. Segja að þarna sé einhver ómögulegur einstaklingur, eða eins ég hef einu sinni heyrt talað um, óalandi óargadýr. Einu sinni fékk ég þá lýsingu á barni frá kennara. Þetta er ekki bara barnanna eða foreldranna, heldur snýst þetta um kerfið allt saman og það þarf að mæta börnunum fyrst og fremst. Það þarf að vera viðeigandi stuðningur og viðeigandi verkfæri og fólk þarf að hafa ákveðinn skilning. Við þurfum einfaldlega að vera betur í stakk búinn inni í skólakerfinu til að mæta þessum einstaklingum.“

Barnið megi ekki upplifa sig sem vondan einstakling

Þuríður segir mikilvægt að barnið sitji ekki eftir sem „svarti pétur“ og upplifi sig sem vondan einstakling sem ekki geti verið með öðrum börnum. Það hafi neikvæð áhrif á sjálfsmynd barns að taka það út úr hóp og meðhöndla sem vondan einstakling sem geti ekki verið í hóp með öðrum. Það megi ekki gefa börnum þau skilaboð.

„Við getum ekki sett þessa ábyrgð alltaf á barnið, að það sé ómögulegt. Einstaklingur sem vex upp í gegnum skólann með sjálfsmynd sem brotnar smám saman og molnar, þá erum við ekki að búa barnið undir góð fullorðinsár eða að það geti tekist á við lífið í framhaldinu.“

Þuríður segir eitthvað verða að breytast og helst sem fyrst.

„Ég held að við séum komin á þann tímapunkt að það verður eitthvað að breytast í kerfinu okkar til að öll börn geti blómstrað í skólanum. Það er ekki nóg að segja það bara. Það verður einhvern veginn að mæta börnunum. Auðvitað eru þau misjöfn og það er misjafnt hvernig þau eru í stakk búin að takast á við umhverfi sitt, hvort sem það er hegðunarlega eða eitthvað annað. Ef við ætlum í raun og veru að vera með skólakerfi sem á að vera einstaklingsmiðað og án aðgreiningar, þá verðum við að skoða hvernig er hægt að breyta kerfinu okkar þannig það virki raunverulega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert