Líklega ritstuldur hjá Bergsveini

Finnbogi Hermansson með Steinólfsbók sína, sem var endurútgefin árið 2019.
Finnbogi Hermansson með Steinólfsbók sína, sem var endurútgefin árið 2019. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Jú, líklega er þetta ritstuldur hjá Bergsveini en hann vildi ekki viðurkenna það á sínum tíma þegar ég bar það upp á hann,“ segir Finnbogi Hermannsson, rithöfundur í Hnífsdal.

Nú í vikunni sté Bergsveinn Birgisson fram og sakaði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra um að hafa byggt nýja bók sína, Eyjan hans Ingólfs, á verki sínu Leitin að svarta víkingnum án þess að geta þess í nokkru. Hugmyndir um landnám Íslands sem settar eru fram í bókinni væru sínar en ekki Ásgeirs. Sá andmælir þessum ásökunum.

Bergsveinn Birgisson og Ásgeir Jónsson.
Bergsveinn Birgisson og Ásgeir Jónsson. Samsett mynd

Slaknar konum þar skaut

Árið 2003 sendi Finnbogi Hermannsson frá sér bókina Einræður Steinólfs, sem var ævisaga Steinólfs Lárussonar, bónda í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd í Dölum – jafnhliða því að vera lýsing á ýmsum staðháttum þar um slóðir. Í þeirri bók (bls. 106 ) segir þar m.a. frá Ballará á Skarðsströnd sem hafi fyrr á tíð verið „sjálfskipaður áningarstaður“ þegar riðið var fyrir Klofning.

Í Snorraskjólum er nokkuð um að slegið hafi verið undir í barn og stundum í ótíma eða til þess höfð viðleitni, þótt ei mætti takast. Er enn einhver mögnun eða útgeislun á þessum áningarstað frá fyrri tíð. Rís mönnum þar gjarnan hold að þarflausu, einum á ferð. Einnig slaknar konum þar skaut þó einsamlar séu. Hafa orðið eftir í Snorraskjólum einhverskonar taufur, sambærileg við reimleika þar sem voveiflegir atburðir hafa átt sér stað, nema þvert á móti.“

Í bók Bergsveins Svar við bréfi Helgu, sem gefin var út árið 2010, kemur að nokkru leyti fyrir sama orðalag og í bók Finnboga, nema hvað Snorraskjól er nú kennt við Freyju. Í bókinni segir (bls. 24):

Síðan fór ég á lullinu fram hjá Freyjuskjóli þar sem mönnum rís hold og konum slakna skaut, að þarflausu einum á ferð, enda um gamlan áningarstað að ræða þar sem gjarna var slegið undir í barn. Þar í þeim fornu taufum fór ég hægt og hugsaði til þín.“

Ætti að vera stoltur af

Finnbogi Hermannsson segir að nokkuð sé um liðið frá því athygli sín á þessari frásögn var vakin. Til sín hafi hringt glögg kona sunnan af Álftanesi og sagt sér frá þessu. Hann hafi þó ekki gert neitt í málinu enda seinþreyttur til vandræða.

„Eftir því sem Bergsveini Birgissyni hefur vaxið fiskur um hrygg sem rithöfundi og fræðimanni ætti ég eiginlega að vera stoltur af því að hann skuli hafa þurft að stela mínum textum. Ég hef heldur enga siðanefnd til að klaga í, hvað þá dómstóla á Norðurlöndum sem einn skáldyrðingur á 66 gráðum norður. Ég hef kosið að kalla mig orðasmið eða skáldyrðing eins og sá guðsvolaði trosberi Magnús Hj. Hjaltason, alías Ólafur Kárason Ljósvíkingur,“ sagði Finnbogi Hermannsson við Morgunblaðið í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert