„Ekki grænn meirihluti, þetta er grár meirihluti“

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, í pontu á fundi borgarstjórnar.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, í pontu á fundi borgarstjórnar. mbl.is/​Hari

Á föstudag var síðasti dagurinn til þess að senda inn umsögn um fyrirhugaðar framkvæmdir Reykjavíkurborgar í Skerjafirði, þar sem byggja á íbúðir ofan á landfyllingu.

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að það stefni í umhverfisslys þar sem fyrirhugað er að byggja í fjöru sem stendur algjörlega ósnortin, ein fárra slíkra í Reykjavík. Hún segir að áform meirihlutans í borginni séu vanhugsuð.

Nátturufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun, Hafrannsóknarstofnun og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, hafa gert athugasemdir við áformin.

„Það verður að koma í veg fyrir þessi umhverfisspjöll og fara að faglegum tilmælum þeirra opinberra stofnanna sem gert hafa athugasemdir við að þarna eigi að raska náttúrulegri fjöru. Það eru fjölmargar stofnanir  sem hafa gert athugasemdir við það að byggja eigi þarna á landfyllingu.“

Segir stefnu meirihlutans vera að þétta um of

Þar að auki segir Marta að margir geri athugasemdir við að byggja eigi á þessu svæði þar sem þar er að finna olíumengaðan jarðveg. Óhugsandi sé að byggja íbúðarhúsnæði á slíku svæði.

„Ef það á að fara í uppbyggingu á þessu svæði þá þarf að vinna með þennan olíumengaða úrgang og það getur haft áhrif á hverfið, en  áform  eru um að þar verði um 4-5 þúsund manna byggð. Það er því mikil andstaða við þessar hugmyndir í hverfinu.“

Marta segir í sambandi við þessi byggingaráform að borgaryfirvöld séu að fara framúr sér í þéttingarstefnu sinni. Óþarfi sé að byggja á hverjum einasta græna bletti í borgarlandinu.

„Þarna er borgin að fara framúr sér og það er engin þörf á því að nýta hvern einasta græna blett í borgarlandinu til uppbyggingar. Ofþéttingarstefna meirihlutans hefur leitt til þess að gengið hefur verið á græn svæði í borginni á kostnað útivistarsvæða en það er ekki nóg með það því nú á að herja á fjörurnar. Það er nægt landrými til þess að byggja í Reykjavík annars staðar en í fjörum , sem jafnvel stendur til að friða, svæði sem  íbúar gætu notað til útivistar. Þetta er því ekki grænn meirihluti, þetta er grár meirihluti, sem vill bara steypu á grænum svæðum og í fjörum borgarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert