Rannsókn á Procar- og Skeljungsmálinu lokið

Ákæruvaldið hefur nú mál Skeljungs og Procar á sínu borði.
Ákæruvaldið hefur nú mál Skeljungs og Procar á sínu borði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rannsókn á bæði Procar- og Skeljungmálinu er lokið. Málin tvö eru komin til ákærusviðs sem tekur ákvörðun um hvort að ákært verði. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson Héraðssaksóknari í samtali við mbl.is, en Kjarninn greindi fyrst frá málinu.

Ólafur segir Skeljungmálið vera gríðarlega umfangsmikið og því megi vænta að lengri tími verði tekinn í að ákvarða hvort ákært verði í því máli en í Procar-málinu.

Procar-málið snýst í grunnin um það að snemma árs 2019 viður­kenndu for­svars­menn bíla­leig­unn­ar Procar að þeir hefðu skrúfað kerf­is­bundið niður kíló­metra­telj­ara í bíl­um sín­um þegar þeir voru sett­ir í sölu.

Skeljungsmálið snýst um kaup á Skeljungi árið 2010. Árið 2018 var greint frá því að meðal þess sem rann­sókn héraðssak­sókn­ara bein­dist að var með hvaða hætti for­svars­menn fyr­ir­tæk­is­ins greiddu fyr­ir 49% hlut í fyr­ir­tæk­inu árið 2010. Sömuleiðis hvort veð Íslands­banka gagn­vart skuld­um eign­ar­halds­fé­lags­ins Skel In­vest­ment hafi verið rýrð með óeðli­leg­um hætti í aðdrag­anda þess að það fór í þrot. 

Þá var einnig til rannsóknar með hvaða hætti fyrr­ver­andi starfs­menn Íslands­banka sem komið höfðu að sölu Skelj­ungs, þau Ein­ar Örn Ólafs­son, sem árið 2009 tók við starfi for­stjóra Skelj­ungs, Halla Sigrún Hjart­ar­dótt­ir og Kári Þór Guðjóns­son, eignuðust árið 2011 hvert um sig 22% hlut í fær­eyska olíu­fé­lag­inu P/​F Magn sem Guðmund­ur og Svan­hild­ur Nanna höfðu átt að fullu frá ár­inu 2009, en Guðmundur og Svanhildur Nanna voru einnig kaupendur Skeljungs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert