Breikkun vegar boðin út í ár

Starfsmenn Ístaks og undirverktakar hafa unnið við vegagerðina.
Starfsmenn Ístaks og undirverktakar hafa unnið við vegagerðina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vegagerðin stefnir að því að bjóða út seinni áfanga breikkunar Vesturlandsvegar á Kjalarnesi á þessu ári. Nákvæm tímasetning útboðs liggur ekki fyrir.

Þessar upplýsingar fékk Morgunblaðið hjá Sigríði Ingu Sigurðardóttur, sérfræðingi á samskiptadeild Vegagerðarinnar.

Verkið í heild snýst um breikkun Vesturlandsvegar (hringvegar) á um níu kílómetra kafla milli Varmhóla í Kollafirði og gatnamóta við Hvalfjarðarveg. Þetta verður 2+1-vegur en á honum verða þrjú hringtorg við Móa, Grundarhverfi og Hvalfjarðarveg. Samhliða breikkuninni er vegtengingum fækkað og í staðinn gerðir hliðarvegir ásamt reiðstígum og stígum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Ístak hf. í Mosfellsbæ bauð lægst í breikkun hringvegar á Kjalarnesi, þ.e. 1. áfanga frá Varmhólum að Vallá, sem er skammt fyrir sunnan Grundarhverfið á Kjalarnesi.

Tilboð voru opnuð hjá Vegagerðinni í ágúst 2020. Ístak bauðst til að vinna verkið fyrir rúma 2,3 milljarða króna. Gengið var til samninga við Ístak og hófust framkvæmdir í september sama ár. Fyrsti áfangi verksins er 4,13 km.

Eins og stendur er unnið við að fergja vegstæðið og einnig er unnið að undirgöngum við Varmhóla og Saltvík, samkvæmt upplýsingum Sigríðar Ingu. Þá er hafin vinna við að fergja vegstæði 2. áfanga.

Á árinu 2022 verður áfram unnið við fergingar, undirgöng og lagnir. Það er kallað ferging þegar grjót/farg er sett ofan á land, sem veldur sigi í jarðveginum. Þegar sigi er lokið verður fargið undirlag fyrir sjálfan veginn, sem verður malbikaður.

Fjöldi starfsmanna Ístaks hefur unnið við verkið auk 10 undirverktaka á vörubílum. 15 vörubílar hafa sótt grjót í efnishauga í Hvalfirði og verið í stöðugum ferðum.

Áætlað er að vinnu við 1. áfanga, frá Kollafirði að Vallá, ljúki árið 2023.

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert