Gegn siðareglum að kalla fólk úr einangrun

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is/Sigurður Bogi

Ekki er hægt að kalla Covid-sýkta hjúkrunarfræðinga til vinnu á heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum þar sem það brýtur í bága við siðareglur þeirra. Með því að mæta til vinnu gætu starfsmenn með virkt smit ógnað lífi og heilsu skjólstæðinga sinna og því er það ótækt. Þetta segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

363 starfsmenn Landspítala eru nú í einangrun vegna Covid-19 og geta þar af leiðandi ekki mætt til starfa. Sjúklingum á heilbrigðisstofnunum smituðum af kórónuveirunni fer sífellt fjölgandi milli daga en í morgun lágu 48 smitaðir á Landspítala.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafa sagt það möguleika í stöðunni að fá Covid-sýkt starfsfólk til vinnu til að bregðast við ástandinu, en ráðherra stefnir á að aflétta öllum takmörkunum innanlands fyrir lok mánaðar.

Flestir á sama máli

Að sögn Guðbjargar er þetta illframkvæmanlegt verkefni og skipti engu máli þó heilbrigðisráðherra mun veita heimild fyrir slíku þar sem siðareglurnar banni það.

Hjúkrunarfræðingar séu skynsamt fólk með mikla reynslu og nám að baki og að þeim ætti að vera treystandi til að taka slíkar ákvarðanir.

Hún hefur nú þegar hafið samtal við stærstu vinnustaði hjúkrunarfræðinga á Íslandi og telur flesta á sama máli: Að ekki sé hægt að kalla Covid-sýkt starfsfólk í vinnu til að sinna veiku fólki.

„Ef við heyrum af því að það séu stofnanir eða vinnustaðir sem ætla að fara að skikka fólk til vinnu þvert á siðareglurnar þá er það litið mjög alvarlegum augum og við komum inn í það samtal. Félagið lítur það mjög alvarlegum augum,“ segir Guðbjörg.

Hagsmuni skjólstæðinga að leiðarljósi

„Fyrir mér og hjúkrunarfræðingum er þetta bara mjög skýrt, þú mætir ekki til vinnu ef þú ert veikur. Það gefur augaleið. Við auðvitað störfum eftir siðareglum hjúkrunarfræðinga og þar kemur fram að við höfum hagsmuni okkar skjólstæðinga algjörlega að leiðarljósi.

Ef að við teljum það vera svo að þeirra heilsu verði ógnað á einhvern hátt með því að mæta til vinnu og eiga að fara að sinna þeim, þá að sjálfsögðu gerum við það ekki,“ segir Guðbjörg í samtali við mbl.is.

Guðbjörg vekur jafnframt athygli á því að ef það kæmi til þess að hjúkrunarfræðingar yrðu skikkaðir í vinnu úr einangrun væri það brot á einum ríkasta rétti sem starfsfólk á vinnumarkaði hefur, veikindaréttinum.

„Þá erum við náttúrulega komin í allt aðra umræðu og gífurlega alvarlega umræðu. Brot á grundvallarrétti starfsfólks.“

Stjórnvöld haft nægan tíma

Hún segir skort á hjúkrunarfræðingum hafa verið viðvarandi í landinu í áratugi og því hafi yfirvöld haft nægan tíma til að bregðast við þeirri stöðu sem við stöndum nú frammi fyrir.

Hún kveðst þó finna fyrir áhuga af hálfu núverandi heilbrigðisráðherra, á að taka til hendinni í þessum málum, sem sé jákvætt. Þá hafi Svandís Svavarsdóttir fyrrverandi heilbrigðisráðherra einnig lagt af stað í ákveðna grunnvinnu og voru meðal annars tvær skýrslur unnar árið 2020 á vegum heilbrigðisráðuneytisins sem fjölluðu um þennan vanda.

Og hvað er til úrbóta?

„Það er alveg ljóst að hér er kynbundinn launamunur. Hjúkrunarfræðingar sem eru 97% konur eru með lægri laun en stéttir með sambærilega menntun og ábyrgð sem eru karlastéttir eða blandaðar stéttir.

Það þarf að byrja á því að leiðrétta þennan mun og borga hjúkrunarfræðingum samkvæmt menntun og ábyrgð í starfi. Þar verða yfirvöld að taka sig saman í andlitinu og leiðrétta í næstu kjarasamningum,“ segir Guðbjörg.

Það liggi nú alveg ljóst fyrir hve mikilvæg störf hjúkrunarfræðinga eru og furðar hún sig á því hvers vegna lögmál um framboð og eftirspurn eigi ekki við um þeirra stétt eins og aðrar fagstéttir innan ríkisins og ráðuneyta.

Gagnrýnir aðrar stofnanir

Spurð út í álagsgreiðslur á tímum Covid-19, segir Guðbjörg ákvörðun Landspítala um að greiða hjúkrunarfræðingum og starfsfólki aukalega vegna álags, jákvætt skref. Hún gagnrýnir aftur á móti aðrar stofnanir sem hafi ekki gert slíkt hið sama.

Hún segir klásúlu í samningum hjúkrunarfræðinga bjóða upp á það að í sérstökum aðstæðum sé hægt að umbuna fólki tímabundið m.a. vegna mikils álags. Enn sem komið er hafa fáir nýtt sér þetta úrræði sem henni þykir afskaplega sérstakt.

„Ef ekki á þessum tímum, hvenær þá?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert