Ellefu ára íslenskur lávarður

Arnaldur Kjárr Arnþórsson er lunkinn bisnessmaður, þrátt fyrir ungan aldur.
Arnaldur Kjárr Arnþórsson er lunkinn bisnessmaður, þrátt fyrir ungan aldur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ellefu ára gamall Reykvíkingur, Arnaldur Kjárr Arnþórsson, festi á dögunum kaup á landspildu í Skotlandi. Hvernig í ósköpunum ætli það hafi komið til?

„Ég var að horfa á YouTube og rakst á einhverjar tuskudúkkur sem kölluðu sig lávarða vegna þess að þær áttu land í Skotlandi. Mér fannst þetta strax mjög spennandi og vildi rosa mikið kaupa land þarna líka. Ég fór því að gúgla þetta og rakst á frábæran Valentínusardíl, þar sem afslátturinn var 80%. Það var of gott til að sleppa.“

– Hvað er þetta stórt land?

„Fimm „square“ fet. Það er um einn og hálfur fermetri.“

– Og hvað borgaðirðu fyrir það?

„40 dollara.“

Móðir Arnaldar, Elísabet Ólafsdóttir, frétti af þessum áformum með eftirfarandi hætti: „Hann sendi mér og pabba sínum skilaboð: „Ég ætla að kaupa land í Skotlandi!“ Áttu fyrir þessu? spurðum við á móti. „Já, látum þetta gerast!““

Og kaupin gerðust. Dagsatt. Arnaldur tekur upp símann, velur hnitin í Google Maps og sýnir mér landið, nálægt örnefninu Ardallie.

Arnaldur ásamt móður sinni, Elísabetu Ólafsdóttur.
Arnaldur ásamt móður sinni, Elísabetu Ólafsdóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þetta er ekkert svindl

Móðir hans er ekki alveg sannfærð um að téð spilda sé í reynd á forræði Arnaldar. „Ég veit ekki alveg hvað myndi gerast ef við mættum þarna. Myndi ekki bara einhver skoskur afdalabóndi koma og reka okkur í burtu?“ spyr hún og fer með nokkur vel valin skosk blótsyrði – með lygilega góðum hreim. „Annars ætlum við ekkert að rannsaka hvort þetta sé svindl.“

Sonur hennar horfir gáttaður á hana: „Þetta er ekkert svindl!“

Annars er það svo sem akademískt. Arnaldur hefur engin áform um að yrkja landið eða færa sér það á nyt með öðrum hætti. „Ég keypti þetta land bara fyrir nafnbótina. Núna er ég í fullum rétti þegar ég bið fólk um að kalla mig lávarð. Lávarður Arnaldur Kjárr.“

Jess sör! segi ég nú bara. Það verður ekki mikið tilkomumeira.

Mér verður litið á móður hans sem segir: „Er nokkuð annað í stöðunni en að kalla hann lávarð?“

Það held ég ekki.

Arnaldur viðurkennir þó að lávarðstignin hafi í reynd ekki mikla þýðingu hér heima. „Þetta er aðallega skemmtilegt. Flestir vinir mínir kalla mig þó enn þá bara Arnald.“

Fjögurra ára afmæli Arnaldar eftir hans höfði. Með honum eru …
Fjögurra ára afmæli Arnaldar eftir hans höfði. Með honum eru foreldrarnir, Elísabet og Arnþór Snær Sævarsson, og litli bróðir, Patrekur Kjárr.

Vill komast lifandi til Valhallar

– En þarftu ekki að prófa að búa í Skotlandi í framtíðinni?

„Jú, það gæti verið gaman að búa í Skotlandi í hálft ár eða í mesta lagi ár. Þá gæti ég sagt við fólk: I am lord, you shall bow to me! Annars verður Ísland alltaf staðurinn fyrir mig, nema þá að ég finni leið til að fara til Valhallar – án þess að vera dauður!“

Það er nefnilega það. Arnaldur er nefnilega mikill áhugamaður um norræna goðafræði og gekk í Ásatrúarfélagið eftir að hafa lesið Hvísl hrafnanna, þrjú hnausþykk bindi fyrir unglinga þegar hann var 10 ára.

Þið getið fræðst betur um það í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert