Staðan áfram þung á Landspítala

Hildur Helgadóttir, starfandi formaður farsóttarnefndar.
Hildur Helgadóttir, starfandi formaður farsóttarnefndar. Ljósmynd/Landspítalinn

Hildur Helgadóttir hefur verið ráðin tímabundið sem formaður farsóttanefndar þar til nýr yfirlæknir smitsjúkdómalækninga verður ráðinn, eða skipað verður í nefndina að nýju.

„Staðan á Landspítala er áfram mjög þung“ segir í tilkynningu í dag frá nefndinni er hún biðlar til almennings að sýna ábyrgð gagnvart ástvinum sínum sem tilheyra viðkvæmum hópum. Heilbrigðiskerfi landsins allt þurfi á því að halda til að ná að manna vaktir og sinna þeirri þjónustu sem þarf.

Líklegt er að um 10% landsmanna séu smitandi með COVID þó fæstir séu alvarlega veikir. Nú er staðan sú að einstaklingar sem tilheyra viðkvæmum hópum streyma inn á Landspítalann.

Enn fremur kemur fram að farsóttanefnd leggi áherslu á að verja sjúklinga fyrir smiti og að fletja kúrfuna í tengslum við veikindi starfsmanna. Áfram verður því heimsóknarbann á meðan ástandið er eins og það er en einstakir stjórnendur geta þó veitt undanþágur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert