„Svo er bara dottið í trúnó“

Hildur mundar hljóðnemann á sviðinu. Hún hefur sótt þó nokkrar …
Hildur mundar hljóðnemann á sviðinu. Hún hefur sótt þó nokkrar lagasmíðabúðir víða um heim og kveður starfið þar nokkuð frábrugðið því sem almennt sé viðtekið á Íslandi þar sem hver og einn semji mest í sínu horni. Ljósmynd/Birta Rán

„Ég er starfandi sem tónlistarkona, vinn fyrir mig og aðra og er pródúsent líka,“ segir Hildur Kristín Stefánsdóttir, sem styðst einfaldlega við skírnarnafn sitt sem listamannsnafn, Hildur. Hún tekur þátt í lagasmíðabúðum STEFs og EKKO Music Rights Europe um helgina og, það sem meira er, hefur haldgóða reynslu af slíkum búðum utan Íslands, en Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri STEFs segir Morgunblaðinu í dag frá verkefni helgarinnar.

„Ég byrjaði fyrir fjórum árum að fara utan til að semja, mér var fyrst boðið í svona lagasmíðabúðir í Noregi og eftir það fór boltinn að rúlla þegar ég áttaði mig á því að hægt væri að vinna sem lagahöfundur. Á Íslandi er bransinn dálítið öðruvísi, flestir eru bara að semja sín eigin lög og eru bara í sínu horni á meðan það er þannig úti í hinum stóra heimi að nokkrir lagahöfundar taka kannski þátt í að semja lag og þetta er meiri samvinna, fólk tekur svona „sessjón“ með hinum og þessum hvort sem fólk þekkist fyrir fram eða ekki, þarna er bara sameiginlegur áhugi á að semja góða tónlist,“ segir Hildur af menningarheimi, sem ekki stendur öllum opinn. Langt í frá.

Hildur segir áhugann fljótt hafa kviknað á þessari nýstárlegu aðferðafræði, hún hafi fengið boð um þátttöku í fleiri búðum og einn góðan veðurdag hafi hún staðið með samning í höndunum sem lagahöfundur erlendis.

Mætti blaut á bak við eyrun

Hún kveður tengslanetið auðvitað skipta máli fyrir tónlistarfólk, sem hugnast að koma sér á framfæri í lagasmíðabúðum, en auðvitað tali reynslan einnig sínu máli. „Þegar ég fór fyrst hafði ég verið að semja í nokkur ár með gömlu hljómsveitinni minni Rökkurró en var svo akkúrat komin á smá flug í poppinu, var nýbúin að vinna Íslensku tónlistarverðlaunin og taka þátt með lag í Söngvakeppninni svo ég var með ágætisreynslu fyrir þessar búðir í Noregi og þar sem var verið að leita að íslenskum höfundum var haft samband við mig.

„Mér fannst ótrúlega fyndið að prófa að semja fyrir K-pop, …
„Mér fannst ótrúlega fyndið að prófa að semja fyrir K-pop, þetta er allt öðruvísi nálgun en hér, þarna eru kannski tíu saman í einu bandi, þrír rapparar og sjö söngvarar,“ segir Hildur sem veit hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni í Suður-Kóreu jafnt sem Síerra Leóne. Ljósmynd/Owen Fiene

Ég bara stökk á þetta þótt ég vissi ekkert hvað þetta snerist um, mætti þarna alveg blaut á bak við eyrun og hitti þá í rauninni í fyrsta sinn fólk, sem var einungis starfandi lagahöfundar, ekki líka flytjendur eins og ég, eitthvað sem þekktist varla á Íslandi,“ rifjar Hildur upp af eldskírn sinni í lagasmíðabúðum.

Hún hreifst frá fyrstu byrjun af vinnulagi búðanna, galdurinn hafi ekki verið flóknari en að hafa gaman af að kynnast nýju fólki og áhuga á tónlist. „Maður kynnist fólki úr sama bransa, en frá mörgum löndum og síðast en ekki síst eignaðist ég þarna góða vini,“ segir Hildur.

Besta listin byggð á alvöru

Blaðamaður reyndi að læra á gítar í þar til gerðum skóla sumarið 1990 með skelfilegum afleiðingum. Glænýr rafmagnsgítar var seldur aftur að hausti til að eiga fyrir guðaveigum á fyrsta menntaskólaballi vetrarins. Skilningurinn á tónsmíðum er því enginn. Hvernig fer þetta eiginlega fram, sest bláókunnugt fólk bara niður, hendir saman texta, einhver er með lagstúf í hausnum og málið afgreitt?

„Ja, það er reyndar engin regla til um hvernig á að gera þetta,“ segir Hildur af innsæi þess, sem þekkinguna hefur. „Oft er listamaðurinn, sem verið er að semja fyrir, inni í herberginu eða við erum með það sem kallað er „pitch“, þá eru plötufyrirtækin að leita að ákveðinni gerð af lagi fyrir ákveðinn listamann. Eigi það til dæmis að vera ástarlag er bara spurt í hópnum „jæja, hvað hafið þið verið að upplifa í ykkar lífi?“ og svo er bara dottið í trúnó. Ég er á því að besta listin sé alltaf sú, sem búin er til úr alvöruatburðum, svo það er bara farið beint í að ræða um það, sem fólk er búið að vera að upplifa, og úr því koma oft hugmyndir að texta eða öðrum þáttum lagsins og svo þegar grunnhugmyndin er komin er bara strax farið í að útsetja, taka upp og prófa sig áfram,“ segir tónlistarkonan íslenska af tilurð sumra dægurverka 21. aldarinnar. Ókunnugt fólk á trúnó í herbergi.

Hildur ásamt finnsku tónlistarkonunni Lxandra í lagahöfundabúðum í Los Angeles …
Hildur ásamt finnsku tónlistarkonunni Lxandra í lagahöfundabúðum í Los Angeles í Kaliforníu árið 2018. Ljósmynd/Aðsend

Eins og Hildur nefndi er algengt að listamaðurinn, sem samið er fyrir, sé viðstaddur og valið á endanlegu verki því í hans höndum. Í búðunum sem nú standa fyrir dyrum á Íslandi er hins vegar samið með suðurkóreskan markað í huga, sem kalli á aðrar nálganir. „Þá er enginn listamaður á staðnum, en við semjum hins vegar eftir eins konar uppskrift, sem plötufyrirtækin eru að leita eftir. Svo velja listamenn eða fyrirtæki lögin síðar í ferlinu. Ég líki þessu stundum við að spila í lottó, maður kaupir miða en vinnur ekkert endilega,“ segir Hildur, sem reyndar lumar á reynslu af að semja fyrir kóreska listamenn.

Þrír rapparar og sjö söngvarar

„Mér fannst ótrúlega fyndið að prófa að semja fyrir K-pop, þetta er allt öðruvísi nálgun en hér, þarna eru kannski tíu saman í einu bandi, þrír rapparar og sjö söngvarar. Þá þarf að hafa þrjá rappkafla og einn kafla fyrir þennan söngvara og annan fyrir hinn, maður fær mjög ítarlega uppskrift að því, sem verið er að leita að fyrir hverja hljómsveit,“ segir Hildur af sérlunduðum listamönnum Suður-Kóreu, en hún hefur sótt lagasmíðabúðir víða um heim, í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Bandaríkjunum og Þýskalandi svo eitthvað sé nefnt. Búðir í Síerra Leóne í Afríku skáru sig þó verulega úr.

„Þar var bragurinn örlítið annar,“ rifjar Hildur upp og hlær björtum hlátri, „þar var ég að vinna með tónlistarfólki, sem kemur úr allt öðrum bakgrunni, mörg þeirra höfðu aldrei unnið tónlist í tölvu áður og það var mjög áhugavert að hitta fólk úr öðrum menningarheimi og semja tónlist saman og enginn var endilega viss um hvað kæmi út úr því. Tónlistin getur sameinað svo ólíkt fólk í að búa eitthvað til, sem hefði hreinlega aldrei verið gert annars. Ég setti eitthvað inn í þetta lag af því að ég fékk innblástur af einhverju, sem einhver annar í herberginu sagði og svo framvegis, það er þetta, sem er svo fallegt við þetta,“ segir Hildur dreyminni röddu.

Langhlaup að semja fyrir aðra

Ekki er örgrannt um að þessi rúmlega þrítuga tónlistarkona hefur séð margt og heyrt, sem öðrum er hulið, og þá forvitnilegt að heyra af þeim væntingum, sem hún gerir sér um verkefnið á Íslandi um helgina.

„Í fyrsta lagi finnst mér frábært að komin sé menning fyrir svona búðum á Íslandi. Við eigum svo marga frábæra lagahöfunda, sem gætu svo auðveldlega haslað sér völl erlendis, og það er mjög mikilvægt að kynna Íslendinga og íslenska tónlistarmenn fyrir þessu, að íslenski bransinn átti sig á því að það er hægt að vinna með fólki úti um allan heim og prófa að senda lög á hina og þessa listamenn þótt þú búir á Íslandi,“ segir Hildur.

Með listamönnum í Síerra Leóne. „Mörg þeirra höfðu aldrei unnið …
Með listamönnum í Síerra Leóne. „Mörg þeirra höfðu aldrei unnið tónlist í tölvu áður og það var mjög áhugavert að hitta fólk úr öðrum menningarheimi og semja tónlist saman og enginn var endilega viss um hvað kæmi út úr því,“ segir Hildur af þessari ævintýraför. Ljósmynd/Aðsend

Hún játar að ákveðið langhlaup sé fólgið í því að semja fyrir aðra, biðin geti orðið löng eftir því að lag frá íslenskum höfundi komi út á vegum annálaðs listamanns á alþjóðavettvangi. „Streymistekjur eru oft litlar, en ég hef oft litið á þetta sem eitthvað, sem ég er að byggja upp á meðan tekjurnar mínar koma aðallega frá verkefnunum mínum hérna heima. En það er líka gaman að segja frá því að til dæmis Alma [Guðmundsdóttir], sem var í hljómsveitinni Nylon, sem einnig hét The Charlies, er ein af fáum íslenskum lagahöfundum, sem nær að vinna í fullu starfi við það. Hún býr í LA og er nýlega búin að vera lagahöfundur hjá nokkrum stórum listamönnum, eins og til dæmis Katy Perry, og mér finnst það líka mikill innblástur að sjá aðra Íslendinga ná árangri í þessu,“ játar Hildur.

Sýnd veiði en ekki gefin

Að lifa af tónlist sé eilífur róður þar sem streymi og útvarpsspilun skilja milli feigs og ófeigs. „Þótt útvarp hljómi orðið gamaldags er það svo að þú færð meira greitt fyrir spilun í útvarpi en streymi svo það er til mikils að vinna fyrir lagahöfunda að koma lögum í spilun hjá útvarpsstöðvum erlendis, ég hef nú, held ég, bara einu sinni lent í því að lag, sem ég samdi, komst í almenna spilun í Þýskalandi og þá fékk ég einhverja upphæð, en streymistekjurnar eru ekki mjög háar nema þú eigir hlut í  mjög stórum og vinsælum lögum,“ lýkur Hildur Kristín Stefánsdóttir, lagahöfundur og tónlistarkona, máli sínu og lítur björtum augum til þess að fá einhvern hluta af sínum framtíðartekjum gegnum vinnu sem lagahöfundur erlendis, en auk þess er hún með fleiri járn í eldinum, þar á meðal skólann Skýið – skapandi skóla, sem hún stofnaði í fyrra og býður þar meðal annars upp á  lagasmíðakennslu og  fyrir alla aldurshópa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert