Hátt í 300 ábendingar um húsnæði hafa borist

Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðarstjóri móttöku flóttamanna frá Úkraínu.
Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðarstjóri móttöku flóttamanna frá Úkraínu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum með öll spjót úti og tökum við öllum ábendingum sem berast fegins hendi,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðarstjóri teymis um móttöku flóttafólks frá Úkraínu.

Opnað hefur verið fyrir vefgátt á island.is þar sem fólk getur boðið fram húsnæði og sett inn upplýsingar um þær eignir sem hægt er að nýta í verkefnið. „Það hefur gengið nokkuð vel. Hátt í 300 ábendingar hafa borist,“ segir Gylfi en bætir við að síðan eigi eftir að fara yfir ábendingarnar og meta hvaða geti nýst.

Gylfi segir ábendingarnar sem hafa borist vera allt frá herbergjum upp í íbúðir, einbýlishús og sumarbústaði. Þá hafa stéttarfélög boðið fram orlofshús sín.

„Við verðum að halda áfram að hvetja fólk að setja inn eignir sem hægt væri að nota bæði til skemmri og lengri tíma. Sérstaklega ef von er á fjölskyldum, sem er mjög líklegt,“ segir Gylfi.

Úkraínskar konur flýja með börn sín frá Úkraínu til Póllands.
Úkraínskar konur flýja með börn sín frá Úkraínu til Póllands. AFP/Janek Skarzynski

Aðspurður segir Gylfi að ekkert sé frágengið varðandi það að taka á leigu hótel fyrir flóttafólk frá Úkraínu.

Ómögulegt að segja hve mörgum er von á

Gylfi segir verkefnið ganga ágætlega. Vandamálið sé helst það að ekki er vitað hversu margir eru að koma og ómögulegt sé að segja til um það, fólk bara kemur og ekkert tilkynningarferli fer í gang áður.

„Við vinnum út frá þessu fyrsta plani, 1500-2000 flóttamenn, en hvort það verði mikið færri eða mikið fleiri vitum við ekki ennþá,“ bætir hann við.

Samkvæmt stöðuskýrslu landamærasviðs ríkislögreglustjóra hafa 143 einstaklingar með úkraínskt ríkisfang sótt um vernd á Íslandi frá því að innrás Rússa hófst í Úkraínu 24. febrúar. Hóp­ur­inn skipt­ist þannig að kon­ur eru 77 tals­ins, börn 38 og karl­ar 28. Tveir þriðju­hlut­ar þessa hóps hafa fengið húsa­skjól hjá vin­um og ætt­ingj­um.

Liggur á að fá húsnæði

Að sögn Gylfa byrja flóttamenn á því að nýta sér úrræði Útlendingastofnunar og eru þeir alltaf þar til að byrja með og geta hugsanlega verið þar í allt að tvær vikur áður en að kerfið tekur við þeim.

„En það er einmitt sú vinna sem við erum í, að stytta það ferli til mikilla muna, og þess vegna liggur okkur svo á því að fá þessi húsnæði,“ segir Gylfi.

Gylfi segir að verkefnið sé stórt og ef eitthvað er, stækkar það með hverri mínútunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert