Þorsteinn fær bætur frá Seðlabankanum

Þorsteinn Már Baldvinsson við upphaf aðalmeðferðar í máli Samherja gegn …
Þorsteinn Már Baldvinsson við upphaf aðalmeðferðar í máli Samherja gegn Seðlabanka Íslands í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að Seðlabankinn greiði Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja skaða- og miskabætur fyrir að hafa sætt  ólögmætri meingerð sem fólst í því að Seðlabankinn lagði stjórnvaldssekt á Þorstein. 

Voru Þorsteini dæmdar 2.480.000 krónur í skaðabætur vegna útlagðs lögfræðikostnaðar og 200 þúsund krónur í miskabætur. Að auki var Seðlabankinn dæmdur til að greiða Þorsteini 3 milljónir króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.

Seðlabankinn lagði 1,3 milljóna króna stjórnvaldssekt á Þorstein  í september 2016 vegna meintra  brota gegn reglum um gjaldeyrismál. Héraðsdómur og Landsréttur komust hins vegar að þeirri niðurstöðu, að Seðlabankinn hefði lagt til grundvallar ranga túlkun á refsiheimildum laga um gjaldeyrismál og afgreiðsla og málsmeðferð bankans hefðu ekki verið í samræmi við lög.

„Samkvæmt öllu framangreindu skorti ákvörðun áfrýjanda (Seðlabankans) um að leggja stjórnvaldssekt á stefnda (Þorstein Má) viðhlítandi lagastoð og var því ólögmæt. Með vísan til alls þess sem að framan greinir og til forsendna héraðsdóms að öðru leyti er staðfest sú niðurstaða hans að meðferð og afgreiðsla málsins af hálfu starfsmanna áfrýjanda hafi verið haldin slíkum annmörkum að skilyrðinu um saknæmi sé einnig fullnægt. Jafnframt er staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að útlagður kostnaður stefnda við að gæta hagsmuna sinna í málinu sé afleiðing af hinni ólögmætu málsmeðferð áfrýjanda og að hann sé því skaðabótaskyldur gagnvart stefnda vegna þess tjóns,“ segir m.a. í niðurstöðum Landsréttar. 

Dómur Landsréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert