Kröfðust þess ekki að auðjöfurinn yrði fjarlægður af lista

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Utanríkisráðuneytið gerði ekki kröfu um að Aleksander Moshensky, kjörræðismaður Íslands í Hvíta-Rússlandi, yrði fjarlægður af lista yfir auðjöfra sem Evrópusambandið hugðist beita refsiaðgerðum.

Þetta sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum í dag.

„Hann er ekki á neinum listum“

Natalia Kaliada, eitt þekkt­asta and­lit stjórn­ar­and­stöðunn­ar í Hvíta Rússlandi, full­yrðir í sam­tali við Stund­ina að Ísland hafi fengið Moshensky fjar­lægðan af umræddum lista

„Okk­ur var sagt hreint út oft­ar en einu sinni: „Ísland fjar­lægði hann af list­an­um“, er haft eft­ir stjórn­ar­and­stæðingn­um, Kaliadu.

Spurð hvort íslensk stjórnvöld hafi hyglað Moshensky um of svaraði Kolbrún neitandi.

„Nei, þessi einstaklingur er kjörræðismaður, sem þýðir að hann þiggur engin laun fyrir það hlutverk, og hefur verið það í allmörg ár.“

Í lok árs 2020 hafi þó eitthvað umtal verið um það hvort hann myndi lenda á einhverjum lista af þessu tagi eða ekki og þá hafi utanríkisráðuneytið kallað eftir upplýsingum um það, að sögn Kolbrúnar. Það hafi verið löngu áður en Rússar gerðu innrás inn í Úkraínu og tengdist sú upplýsingaöflun ráðuneytisins því ekki þeim stríðsátökum.

„Sú upplýsingaöflun var í raun almenns eðlis, þ.e. til að átta okkur á stöðunni eða því hvaða afleiðingar það hefði myndi hann enda á lista af þessu tagi.“

Ráðuneytið hafi þó ekki hafa átt aðkomu að því að Moshensky var fjarlægður af umræddum lista, bætti hún við.

„Eftir því sem mér er sagt gerði ráðuneytið ekki kröfu um að hann yrði fjarlægður af lista. Hann er ekki á neinum listum og hefur ekki verið á neinum listum.“

Gat ekki tjáð sig um ummæli Kaliadu

Spurð út í ummæli Kaliadu, sem heldur því fram að íslensk stjórnvöld hafi fengið Moshensky fjarlægðan af listanum, sagðist Þórdís ekki getað tjáð sig um þau.

„Ég viðurkenni að ég hef ekki lesið þessa löngu umfjöllun Stundarinnar um málið svo ég get ekki tjáð mig um einstaka orð einstakra aðila sem rætt er við í þeirri fréttaskýringu.“

Þá sagðist hún ekki hafa fengið upplýsingar um að Boris V. Ivanov, kjörræðismaður Íslands í Sankti Pétursborg, hafi verið settur á lista yfir auðjöfra sem ESB hugðist beita refsiaðgerðum, innt eftir því.

Eins sagðist hún ekki vita til þess að Svíar og Norðmenn hafi beitt sér fyrir því að Moshensky eða aðrir rússneskir auðjöfrar yrðu fjarlægðir af listum af þessu tagi.

„Ég hef í raun bara aflað mér upplýsinga undanfarna daga eftir að þessi mál komust í umræðuna og það hefur allavega ekkert verið um það í þeim upplýsingum, þannig ég veit ekki til þess, nei.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert